Innlent

Didda minnist Sólveigar Anspach: „Hún bauð ekki dauðanum í kaffi“

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Sólveig Anspach hafði nýlokið tökum á nýjustu bíómynd sinni, Sundáhrifin, þegar hún lést úr krabbameini, þann sjöunda ágúst.  Myndin verður hinsvegar frumsýnd eftir áramót.

Kvikmyndin Sundáhrifin er hluti af fransk-íslenskum þríleik, þar sem Didda Jónsdóttir fór með aðalhlutverkið en hinar myndirnar eru myndirnar Drottningin af Montreuil og Skrapp út. „Ég hef nú svona á tilfinningunni að hún sé enn að vinna með handritið. Ég eiginlega hlakka enn meira til að sjá hvað hún ætlaði að segja við okkur í restina,“ segir Didda sem er á leið til Frakklands til að vera við útförina.

Didda segist telja að öllum hafi þótt gott að vinna með Sólveigu. Hún hafi verið góð við fólk. Henni hafi þótt vænt um mannkynið. Hún hafi haft húmor fyrir samstarfsfólkinu og íslensku hliðinni á sér sjálfri og þeim. Íslendingar séu þó stundum ruddalegri en hún hafi átt að venjast.

Hún fór bara út að vinna

Alls gerði Sólveig fjórtán myndir á ferli sínu sem spannar innan við tvo áratugi. Didda segist telja að hún hafi ekki verið reiðubúin að deyja. Hún hafi átt meira inni en það. „Hún var ekki svona manneskja sem settist niður og bauð dauðanum í kaffi,“ segir Didda. „Hún fór bara út að vinna og vann sig frá hlutunum.“

Hún segist eiga eftir að sakna þess að heyra ekki fleiri skipanir frá Sólveigu, svo sem „aksjón Didda“ og „kött“. Hún segist telja að þannig sé um marga sem hafi verið að vinna með henni. Hún eigi þó eftir að eyða ævinni í að minnast hennar verka, og það þyki henni dálítið gott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×