Innlent

Sænska ríkisstjórnin reiðubúin að loka Eyrarsundsbrúnni

Atli Ísleifsson skrifar
Eyrarsundsbrúin tengir saman Kaupmannahöfn og Malmö.
Eyrarsundsbrúin tengir saman Kaupmannahöfn og Malmö. Vísir/Getty
Hert eftirlit sænsku lögreglunnar sem boðað er í rútum og lestum sem fara yfir Eyrarsundsbrúna hefur sætt mikilli gagnrýni. Sænska ríkisstjórnin virðist þó reiðubúin að ganga mun lengra til að stemma stigu við straum flóttafólks til landsins með því að eiga möguleika á að loka Eyrarsundsbrúnni.

Þetta kemur fram í drögum að lagabreytingum ríkisstjórnarinnar sem Dagens Industri segir frá.

Lestarfélagið SJ hefur greint stjórnvöldum frá því að allri lestarumferð yfir brúna verði stöðvuð, verði eftirlitið tekið upp. Sömuleiðis varar Skånetrafiken, sem sér um reglulegar lestarferðir milli Sjálands og Skánar, við að um klukkustunda seinkun gæti orðið á ferðum.

Í greinargerð ríkisstjórnarinnar kemur fram að nokkuð hafi dregið úr flóttamannastraumnum til Svíþjóðar eftir að landamæraeftirlit var tekið upp. Það dugi þó ekki til. Segir að fjöldi hælisumsókna sé enn slíkur að það kunni að vera ógn við almannaheill og innra öryggi í landinu.

Lagabreytingarnar, sem eiga að gilda í þrjú ár, heimila yfirvöldum ekki einungis að herða eftirlit í rútum, lestum og ferjum, heldur einnig að loka vegum og brúum.

Þúsundir flóttamanna hafa komið til Svíþjóðar um Eyrarsundsbrúna síðustu mánuði. „Eyrarsundsbrúnin er ein af mikilvægustu og umferðarþyngstu tengingunum við annað land, Danmörk. Tímabundin lokun á brúnni kann að vera enn ein aðgerð til að minnka áhættu að mikill straumur hælisleitenda ógni almannaheill og innra öryggi,“ segir í greinargerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×