Innlent

Framleiðendur fái styrki fyrir bíómiða

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Vonarstræti var vinsælasta mynd ársins 2014 og fær því líklega góðan skerf af 30 milljónunum sem eru árlegt framlag til miðastyrkja.
Vonarstræti var vinsælasta mynd ársins 2014 og fær því líklega góðan skerf af 30 milljónunum sem eru árlegt framlag til miðastyrkja. Mynd/Sena
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt frumvarp fyrir þing um að kvikmyndaframleiðendur fái greiddan svokallaðan miðastyrk vegna mynda sem eru á íslensku og sýndar í íslenskum kvikmyndahúsum.

Í frumvarpinu segir að þrjátíu milljónir verði greiddar út á ári til framleiðenda kvikmynda sem sýndar hafa verið í kvikmyndahúsum frá árinu 2013 til loka árs 2016. Styrkurinn verður greiddur afturvirkt. Undir lok árs 2016 er áætlað að endurskoðun á styrkjakerfi og kvikmyndalögum verði lokið.

Með miðastyrkjum er verið að efna ákvæði samkomulags sem gert var árið 2011 um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð. Þar var ákveðið að miðastyrkir skyldu vega upp á móti áhrifum af álagningu virðisaukaskatts á aðgöngumiða að sýningum á íslenskum kvikmyndum sem kom til framkvæmda árið 2013. Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að meðalmiðastyrkur á árunum 2013 til 2015 verði á bilinu 203 til 730 krónur, eða sem nemur 15 til 56 prósentum af meðalmiðaverði. Greiðslan verður mismunandi eftir árum, fer þá eftir fjölda umsækjenda, aðsókn og söluandvirði miða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×