Skoðun

Jólagjöfin í ár? Endurheimt votlendis

Halldór Reynisson skrifar
Loftslagsmálin eru „stærsta siðferðismál samtímans“ að sögn Frans páfa. Við Íslendingar höfum verið frekar seinir til í umhverfismálum og ef allir jarðarbúar stigju jafnt þungt til jarðar og við, þá þyrfti heilar sjö Jarðir.

Til er einföld leið til að bæta stöðu okkar í loftslagsmálum; að moka ofan í einhverja af þeim rúmlega 30 þúsund kílómetrum af skurðum sem grafnir voru í mýrlendi landsins. Sem sagt; að endurheimta votlendið, a.m.k. hluta þess.

Í seinna stríði hófu Íslendingar að ræsa fram mýrar til að rækta tún og efla landbúnað og framleiðslan stórjókst. En við fórum hressilega fram úr okkur sjálfum í þarflausum dugnaði. Enda vissu menn ekki betur í þann tíð en að þessi skurðgröftur heyrði til framfara.

Alls er talið að um 4.000 ferkílómetrar lands hafi verið ræstir fram. Af þessu landi eru 15-17 af hundraði nýtt til landbúnaðar. Afgangurinn? Dælir út koldíoxíði sem eykur á loftslagsvandann.

Það ætti því að vera auðvelt fyrir Íslendinga að stíga léttar til jarðar í loftslagsmálum með því einfaldlega að moka ofan í eitthvað af öllum þessum skurðum. Ávinningurinn af því að moka ofan í kílómetra langan skurð eru 25 hektarar votlendis. Og hver hektari votlendis bindur álíka mikið koldíoxíð og tíu jepplingar losa út í andrúmsloftið á ári.

Það kann að þvælast fyrir að mest af framræstu landi er í einkaeign. Væri ráð að fólk og fyrirtæki gætu tekið landspildur í „fóstur“? Fengið að leggja til fjármuni sem þarf til að endurheimta votlendið? Væri ekki hægt að hugsa upp svipað fyrirkomulag og með bændaskógana þannig að bændur sjálfir hefðu hag af því að endurheimta votlendið sem þeir nýta ekki til landbúnaðar?

Getur það orðið jólagjöfin í ár að gefa Íslandi eitthvað af votlendi til baka? Ég veit fyrir víst að lóan og spóinn mundu fagna, enda eru mýrarnar kjörlendi þeirra, en þessir fuglar eru vorboðar í sveitum landsins og í þjóðarsálinni.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×