Lífið

Er kölluð Hallgerður en heiti Gló Magnaða

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hallgerður á nokkra uppáhaldsstaði, einn þeirra er Grænaborg. Þessi mynd er tekin nálægt honum.
Hallgerður á nokkra uppáhaldsstaði, einn þeirra er Grænaborg. Þessi mynd er tekin nálægt honum. Fréttablaðið/GVA
Hvað heitir þú fullu nafni og hvað ertu gömul? Ég er kölluð Hallgerður Hafþórsdóttir en ég heiti Gló Magnaða og ég er fimm ára.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Að leika í varúlfaleik og búa til marglit bönd, það heitir að loom-banda.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn? Leikskólinn minn, Grænaborg, og Flatey og líka Berlín því ég er að fara þangað og það er í fyrsta skipti sem ég fer til útlanda.

Hvað er mest gaman að gera í Flatey? Að klappa Diego lambhrútnum mínum, að sulla í sandkassanum með Áróru og Sóldísi, skvetta vatni og vera alls konar búð.

Ég er oft dugleg að leika mér og ef vinkonur mínar eru ekki í Flatey fer ég bara til ömmu, hún á heima þar.

Ertu stundum að hjálpa til við sveitastörfin? Jebb. Ég smala kindum, gef þeim og rek þær inn í girðingu. Svo hjálpa ég afa að sækja kartöflur og svo setjum við þær í pott og borðum þær.

Ég er líka dugleg að hjálpa ömmu að baka pönnsur og hjálpa Hrönn með Lúkas og Kára - þeir eru hundar.

Hvað er það ævintýralegasta sem þú hefur gert í sveitinni? Einu sinni þegar ég fór á traktorinn hans Magnúsar og fór í heimsókn til hans, þar fæ ég alltaf kakó og að klappa Vaski.

Hefurðu farið á sjóinn að fiska? Jebb. Ég fer oftast með pabba, stundum með öllum hinum. Við erum að veiða þorsk, ég hef sko veitt nokkra og líka makríl.

Einu sinni fékk pabbi lifandi sel í netið sitt og ég fékk að klappa honum áður en hann fór aftur í sjóinn.

Ertu aldrei sjóveik? Nei, nei.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×