Innlent

Skíðasvæðin við borgina lokuð en opið á landsbyggðinni

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Viðburðir á nokkrum skíðasvæðum í tilefni páska.
Viðburðir á nokkrum skíðasvæðum í tilefni páska. Vísir/Vilhelm
Skíðaáhugamenn á höfuðborgarsvæðinu hefðu betur farið úr bænum um helgina því lokað er í bæði Bláfjöllum og Skálafelli vegna veðurs en opið er víða annarsstaðar á landinu. Svartaþoka er í Bláfjöllum og rok og rigning í Skálafelli. Viðburðir eru á dagskrá á nokkrum skíðasvæðum í tilefni páska.

Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar í Tungudal er opið milli 10-17 og á Seljalandsdal frá klukkan 10. Þar verður öllum börnum fæddum 2003 og síðar boðið að taka þátt í páskaeggjamóti, en allir þátttakendur fá egg. Reiknað er með ágætu veðri, vestan og suð-vestan þrír metrar á sekúndu, skýjað og hiti um tvær gráður og rigning.

Skíðasvæðið Oddskarð er opið á milli 10 og 17 í dag en svo aftur frá 20 til 23. Samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum skíðasvæðisins verður ekta Tíróla tónlist spiluð í brekkunum í kvöld en í dag fer fram risastórsvigskeppni fyrir 16 ára og eldri í minningu Gunnars Ólafssonar.

Í dag verður opið kl. 10-16 á Skíðasvæðinu í Stafdal verður svo opið á milli 10 og 16 sem og skíðasvæðið Tindastóls. Skíðasvæði Dalvíkur verður einnig opið 10 til 16 en þar fer fram páskaeggjaleit, sem hófst þegar svæðið opnaði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×