Enski boltinn

Arsenal upp í 2. sætið eftir sigur á Liverpool | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hector Bellerín skorar fyrsta mark leiksins.
Hector Bellerín skorar fyrsta mark leiksins. Vísir/Getty
Arsenal vann öruggan 4-1 sigur á Liverpool í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Þetta var sjöundi deildarsigur Arsenal í röð en liðið er nú komið upp í 2. sæti deildarinnar með 63 stig. Liverpool er hins vegar í því fimmta með 54 stig, fimm stigum frá Meistaradeildarsæti.

Mörkin í leiknum má sjá hér að neðan.

Arsenal var sterkari aðilinn framan af leik og Santí Cazorla og Aaron Ramsey fengu báðir góð færi til að koma Skyttunum yfir en Simon Mignolet, markvörður Liverpool, sá við þeim.

Liverpool vann sig jafnt og þétt inn í leikinn og á 19. mínútu fengu gestirnir kjörið tækifæri til að ná forystunni. Lazar Markovic komst þá einn inn fyrir vörn heimamanna en í stað þess að skjóta sjálfur reyndi hann að gefa til hliðar á Raheem Sterling og færið rann út í sandinn.

Veislan hófst svo á 37. mínútu þegar Spánverjinn Héctor Bellerín kom Arsenal með góðu vinstri fótar skoti eftir að hafa leikið á landa sinn, Alberto Moreno.

Emre Can fær að líta rauða spjaldið hjá Anthony Taylor, dómara leiksins.vísir/getty
Mesut Özil tvöfaldaði svo forystu Arsenal á 40. mínútu þegar hann skoraði með fallegu skoti beint úr aukaspyrnu. Þetta var 20. markið sem Arsenal skorar eftir fast leikatriði í deildinni, en ekkert lið hefur skorað fleiri.

Á lokamínútu fyrri hálfleik kom svo þriðja markið. Alexis Sánchez fékk boltann frá Ramsey, lék inn á völlinn og á Kolo Toure og þrumaði boltanum svo boltanum yfir Mignolet og í markið. Þetta var 14. deildarmark Sánchez í vetur og það fyrsta síðan í sigrinum á QPR 4. mars.

Seinni hálfleikur var öllu rólegri en Liverpool fékk líflínu þegar Jordan Henderson minnkaði muninn með marki af vítapunktinum á 76. mínútu. Sterling, sem hefur verið mikið í fréttum undanfarna daga, fiskaði vítaspyrnuna.

Átta mínútum síðar fékk Emre Can að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir brot á varamanninum Danny Welbeck.  

Einum fleiri bættu Skytturnar við fjórða markinu. Þar var að verki Oliver Giroud, besti leikmaður mars-mánaðar í ensku úrvalsdeildinni. Þetta var sjötta deildarmark Frakkans í jafn mörgum leikjum.

Fleiri urðu mörkin ekki og Arsenal fagnaði gríðarlega mikilvægum sigri í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu.

Arsenal 1-0 Liverpool Arsenal 2-0 Liverpool Arsenal 3-0 Liverpool Arsenal 3-1 Liverpool Emre Can rekinn út af Arsenal 4-1 Liverpool



Fleiri fréttir

Sjá meira


×