Innlent

Allt að þriggja mánaða bið á Vog: "Hann fer í ákveðinn forgang“

Birgir Olgeirsson skrifar
Björgvin Sigurðsson greindi frá því í gær að hann hefði ákveðið að leita sér lækningar á Vogi.
Björgvin Sigurðsson greindi frá því í gær að hann hefði ákveðið að leita sér lækningar á Vogi. Vísir/Vilhelm/Gunnar
„Það er von að menn spyrji,“ segir Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, spurður um biðlistann eftir því að komast í áfengis- og vímuefnameðferð. Fjöldamargir eru á biðlista eftir að komast í meðferð á Vogi og geta sumir þurft að bíða í allt að þrjá mánuði. Því vakti það athygli margra í gær þegar Björgvin Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og sveitarstjóri Áshrepps, greindi frá því að hann færi í meðferð á Vogi næstkomandi miðvikudag.

Björgvin tók þessa ákvörðun eftir að honum var sagt upp sem sveitarstjóra Áshrepps í síðustu viku fyrir að hafa dregið sér fé í opinberu starfi og því ljóst að hann þurfti ekki að bíða í þrjá mánuði eftir að komast í meðferð. Því er Þórarinn Tyrfingsson spurður hvernig fólk kemst fram fyrir þennan biðlista.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi. Vísir/Heiða
„Meikar stundum ekki sens“

„Það er eðlilegt að menn spyrji um það því það meikar stundum ekki sens,“ segir Þórarinn.

„Þeir sem hafa forgang hérna er fólk sem ekki hefur verið hér áður. Þar á eftir kemur fólk sem er mjög mikið veikt og endurkomu fólk, sem er þá inni á bráðamóttöku og hefur farið þangað vegna sjálfsvígstilrauna eða með sýkingar, eða fólk sem er á okkar göngudeild og er mjög illa á sig komið. Þá hefur það forgang. Svo í tilfelli Björgvins þá hefur hann ekki komið hér oft svo hann hefur ákveðinn forgang,“ segir Þórarinn en Björgvin greindi frá því í viðtali við Herðubreið í gær að hann hætti að drekka fyrir tíu árum.

„Og það gekk vel í nokkur ár en í róti síðustu ára fór ég að misnota það aftur í vaxandi mæli,“ sagði Björgvin.

„Best fyrir þjóðfélagið“

Þórarinn segir að einnig sé rétt að spyrja hvort þessi forgangsröðun á Vogi sé rétt. „Það er hægt að segja að maður sem kemur hér inn til dæmis og mikið er í húfi og svo erum við búin að vera með hann í langri meðferð, svo fellur hann. Samkvæmt öllu ætti ekki að taka hann inn því hann var hér fyrir hálfu ári, en kannski er lang skynsamlegast að kippa honum strax inn, það er best fyrir hann, best fyrir okkur og best fyrir þjóðfélagið. En ennþá erum við að raða þessu inn svona eftir kannski einhverjum gömlum viðhorfum og hugsunarhætti. Allt er þetta til að rugla fólk í ríminu.“

Hann segir það vera algalið að fólk komist ekki í meðferð fljótt og örugglega ef það er mikið veikt. „Alltaf þegar koma biðlistar, hvort sem það er mjaðmaaðgerð eða hvað sem það er, þá kemur þessi umræða frá almenningi og öllum, hvernig er raðað, hverjir taka ákvarðanir um að þetta fólk komi inn. Er þetta bara dregið upp úr hatti eða hvað? Þetta fylgir alltaf og mér finnst eðlilegt að fólk spyrji þessara spurninga og fólk á að gera það, af hverju var hann tekinn inn? Svarið við því er að hann fer í ákveðinn forgang,“ segir Þórarinn og segir það vera vegna þess að Björgvin falli í þann hóp sem ekki hefur verið áður inni á Vogi. 


Tengdar fréttir

Fyrrverandi ráðherra rekinn vegna fjárdráttar í Ásahreppi

Björgvin G. Sigurðsson dró sér fé í starfi sínu sem sveitarstjóri Ásahrepps. "Fyrst með litlum greiðslum hér og þar, en vatt upp á sig líkt og snjóbolti sem rúllar niður brekku,“ segir Egill Sigurðsson, oddviti Ásahrepps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×