Lífið

Eldbarnið æft við upphaf eldgoss

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hópurinn er nú við æfingar á leiksýningunni Eldbarnið.
Hópurinn er nú við æfingar á leiksýningunni Eldbarnið. Vísir/Ernir
„Svo gerist það þegar við erum að æfa að það byrjar að gjósa norðan Vatnajökuls,“ segir Pétur Eggerz, leikari og handritshöfundur barnaleikritsins Eldbarnið sem Möguleikhúsið setur upp í febrúar. Hann bætir við: „Góð áminning um það hvað við erum að fjalla um í þessu leikriti hvernig þetta land er sem við búum í. Hvað fólk hefur þurft að fást við.“

Eldbarnið fjallar um unga stúlku sem er uppi á tímum Skaftárelda og Móðuharðinda. Hún lendir í kjölfar hamfarana í ævintýralegum aðstæðum. Pétur segir umfjöllunarefnið því hafa öðlast nýtt vægi við upphaf eldgossins í Holuhrauni.

Möguleikhúsið fagnar 25 ára afmæli á árinu og stefnir á að bjóða upp á veglega afmælisdagskrá, en leikhúsið leggur áherslu á leiksýningar fyrir börn og unglinga.

Fjáröflun fyrir sýninguna er hafin á vefsíðunni Karolinafund og hægt er að styrkja sýninguna frá fimmtán hundruð krónum og allt upp í fimmtán milljónir.

„Ef einhver stórhuga fjárfestir hefur áhuga þá er hægt að fá þessa sýningu fyrir alla skóla á landinu. Maður má alltaf vera bjartsýnn,“ segir Pétur kátur.

Eldbarnið verður frumsýnt 7. febrúar í Tjarnarbíói, en sýningin er einnig hugsuð sem ferðasýning fyrir grunnskóla landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×