Lífið

Hagfræðingur skrifar kvikmyndahandrit

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Sóley skrifaði kvikmyndahandrit sem fjallar um íslenska fjölskyldu sem lokar sig af vegna fuglaflensu.
Sóley skrifaði kvikmyndahandrit sem fjallar um íslenska fjölskyldu sem lokar sig af vegna fuglaflensu. Vísir/GVA
„Ég hef lengi ætlað að reyna að skrifa og koma mér meira í það, bæði leikrit, skáldsögur og eitthvað svoleiðis. Þetta er fyrsta verkið sem ég klára,“ segir Sóley Ómarsdóttir hagfræðingur.

Á haustmánuðum skráði hún sig á leikritunarnámskeið í Tjarnarbíói. Afraksturinn er kvikmyndahandritið Útgöngubann og verður sviðsettur leiklestur á verkinu fluttur í kvöld.

Sóley lagði lokahönd á verkið á námskeiðinu en hafði unnið í því í tvö ár. „En ég er náttúrulega ekki búin að vera að vinna í því stanslaust,“ segir hún hlæjandi. Útgöngubann fjallar um íslenska fjölskyldu sem neyðist til þess að loka sig af vegna fuglaflensufaraldurs.

„Fjölskyldufaðirinn tekur hlutverk sitt svo alvarlega að fjölskyldan veit ekki hvort er meira vandamál, faraldurinn eða hann,“ segir Sóley.

„Mig langaði að skoða hvað myndi gerast ef íslensk fjölskylda myndi þurfa að loka sig af. Skoða vandamál sem myndu koma upp og hvernig yrði brugðist við.“

Sóley vinnur hjá rannsóknarmiðstöð sem er með aðsetur í Malasíu. Handritaskrif eru ólík því sem hún fæst við dagsdaglega en hún er engu að síður spennt fyrir að heyra verkið lesið af leikurum. „Ég er alveg pínu stressuð en ég held að þetta verði bara gaman.“

Næstkomandi tvo þriðjudaga verða lesin handrit af leikritunarnámskeiðinu. Leiklestur á Útgöngubanni hefst klukkan hálf níu í Tjarnarbíó í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×