Innlent

Hópnauðgunarmálið spegill á samfélag klámvæðingar

Una Sighvatsdóttir skrifar
Eins og svo oft þegar um kynferðisbrot er að ræða stóð orð gegn orði í hópnauðgunarmálinu sem sýknað var í í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þrír dómarar mátu það svo að vitnisburður sextán ára stúlku hefði ekki næga stoð, í öðrum gögnum málsins, til þess að hann dygði sem sönnun gegn eindreginni neitun piltanna fimm sem hún kærði.



Þegar dómurinn er skoðaður vekur athygli hve upplifun ungmennanna virðist hafa verið ólík af því hvað var í raun að eiga sér stað þegar piltarnir fimm skiptust á að hafa „margs konar kynferðismök" við stúlkuna. Framburður stúlkunnar er sá að hún hafi stofnað til kynna með einum piltanna en að þátttaka hinna fjögurra hafi verið gegn hennar vilja, hún hafi orðið hrædd, misst tök á aðstæðum og frosið. Móðir hennar sendi í gærkvöldi frá sér yfirlýsingu um að piltarnir hafi verið að svala fýsnum sínum á dóttur hennar og skeytt engu um hana, enginn hafa spurt hana hvað hún vildi eða hvernig henni leið.



Piltarnir segjast hinsvegar hafa talið stúlkuna taka þátt sjálfviljuga. Ekkert hafi gefið til kynna að hún væri hrædd. Sá sem síðastur kom inn í herbergið lýsir því orðrétt þannig fyrir dómi að það sem fyrir augu bar hafi verið „algjörlega venjulegt kynlíf".



Samfélagið horfi í eigin barm

María Rut Kristinsdóttir, talskona Druslugöngunnar, segir mál sem þessi ákveðinn spegil á samfélagið. „Það sem blasir við mér er þetta: Það er augljóst mál að ákveðin klámvæðing er að eiga sér stað í samfélaginu okkar og að þessi mörk milli ofbeldis og kynlífs eru alltaf að verða óljósari. Við erum oft að sjá dæmi um mál þar sem einn einstaklingur upplifir kynlíf og hinn einstaklingurinn upplifir ofbeldi. Og hvað getum við þá gert? Við hljótum að þurfa að horfa í eigin barm sem samfélag og skoða, hvernig erum við að ala upp næstu kynslóð? Erum við að senda eðlileg skilaboð?"



María Rut bendir auk þess á að einungis 10% þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi taki það skref að kæra, sem sé áhyggjuefni. Hún segir mikilvægt að betur sé hlúð að þeim brotaþolum sem fara inn í kerfið.



„Ég held að við vitum það alveg að réttarkerfið sem slíkt er í lagi. Það eru tiltölulega ný ákvæði um það hvernig bregðast eigi við þessum málaflokki innan réttarríkisins. Ég er frekar á því að líta þurfi á hvernig verkferlar eru innan lögreglu, gagnvart neyðarmótttökunni og gagnvart réttargæslumönnum, sem hafa til dæmis ekki aðgang að gögnum meðan aðrir lögmenn hafa það. Ég held að þetta séu lítil mál sem væri hægt að fara í strax."



Þess utan sé þörf á aukinni fræðslu. Samfélagið þurfi að líta í eigin barm. „Ég held að þarna snúist þetta allt um fræðslu, vitundarvakningu og umræðu. Við þurfum að opna umræðuna um kynlíf og kynferðisofbeldi og allt ofbeldi ef út í það er farði. Með aukinni umræðu upprætum við vanþekkingu á þessum málaflokki


Tengdar fréttir

Allir sýknaðir af hópnauðgun

Fimm piltar á aldrinum 18-21 árs hafa verið sýknaðir af ákæru um nauðgun á sextán ára stúlku í samkvæmi í Breiðholti í maí í fyrra. Einn var sakfelldur fyrir að taka atvikið upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×