Lífið

Jafnrétti handa öllum

Guðrún Ansnes skrifar
Fanney vonast til að sjá sem flesta á Nauthól kl. 8.30 í dag.
Fanney vonast til að sjá sem flesta á Nauthól kl. 8.30 í dag. Vísir/Stefán
„Með þessu viljum við vekja jákvæða athygli á þeim fyrirtækjum sem hafa sett jafnrétti á oddinn og hvetja um leið önnur til að feta sömu slóð,“ segir Fanney Karlsdóttir, stjórnarkona í UN Women á Íslandi og Festu og fræðslustjóri Betware.

Í dag fer fram morgunverðarfundur undir yfirskriftinni „Eru til karla- og kvennastörf?“

„Við munum einblína á tæknigeirann í þetta skiptið og skorum karllæga menningu innan hans á hólm,“ útskýrir Fanney og bætir við að allra hagur sé fólginn í jafnrétti innan fyrirtækja þar sem jöfn tækifæri óháð kyni séu í hávegum höfð.

„Kynbundinn launamunur er staðreynd á Íslandi í dag og ekki er hjá því komist að tala um bakslag í jafnréttisbaráttunni sé litið til fækkunar karla sem sjá sér fært að taka feðraorlof,“ bendir Fanney á.

Að loknum fundarstörfum afhendir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, svo Hvatningarverðlaunin 2015. Verðlaunin eru afhent í annað skiptið í ár, en þau voru í fyrsta skipti afhent í fyrra og féllu þá í skaut Rio Tinto Alcan.

Hvatningarverðlaunin eru því komin til að vera, enda mikilvægt að halda málstaðnum á lofti. „Með þessum verðlaunum viljum við hvetja stjórnendur fyrirtækja til að taka ábyrgð og einsetja sér að koma upp markvissri jafnréttisáætlun. Ein leið til þess er að vinna eftir sjö viðmiðum alþjóðlegs jafnréttissáttmála sem UN Women er í forsvari fyrir og nýta sér tengslanet fyrirtækja innan Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð,“ bætir Fanney við hvetjandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×