Menning

Fæðingin tók um tíu ár

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Andrea er hér ásamt ljósmyndaranum Aldísi Pálsdóttur en Andrea hefur unnið að bókinni síðastliðin tíu ár og sér nú fyrir endann á verkefninu.
Andrea er hér ásamt ljósmyndaranum Aldísi Pálsdóttur en Andrea hefur unnið að bókinni síðastliðin tíu ár og sér nú fyrir endann á verkefninu. Vísir/GVA
„Þetta er búin að vera heillöng fæðing,“ segir Andrea Sóleyjar og Björgvinsdóttir um bókina Bókin okkar, sem fjallar um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu.

„Ég fékk hugmyndina fyrir tíu árum þegar ég var ófrísk af fyrstu stelpunni minni og byrjaði hægt og rólega að skrifa og svo vatt þetta svolítið upp á sig,“ segir hún glöð í bragði en bókin er hugsuð sem uppflettirit fyrir verðandi foreldra og er ríkulega myndskreytt með myndum eftir ljósmyndarann Aldísi Pálsdóttur. Andrea hafði þó unnið að bókinni í rúm tvö ár áður en hún fékk ljósmyndarann í lið með sér.

Hugmyndin kviknaði líkt og áður sagði þegar Andrea var sjálf ófrísk og fannst vanta íslenskt efni. „Maður er með stanslausar spurningar í kollinum. Ég hafði samband við ljósmóðurina mína, Hafdísi Rúnarsdóttur, sem er í dag góð vinkona mín og hún sá um allt sem er fræðilegt í bókinni.“ Einnig eru í bókinni reynslusögur frá íslenskum foreldrum.

Í bókinni er jafnframt lögð talsverð áhersla á sængurlegukaflann. „Það er svolítið svona hjartans mál Hafdísar. Hún leggur áherslu á að konur fái stuðning og þann tíma sem þær þurfa í sængurlegunni en á þeim tíma er oft aukin hætta á fæðingarþunglyndi og þarf að hlúa vel að þeim.“

Hún segir vissulega að þetta tíu ára ferli hafi verið lengra en hún hélt að það yrði í upphafi og vissulega hafi komið tímar þar sem hún var við það að missa móðinn. „Núna er ég alveg svakalega spennt, alveg eins og ég var fyrir svona átta, níu árum, og sé fyrir endann á þessu.“

Nú safnar Andrea fyrir útgáfu bókarinnar inni á vefsíðunni Karolinafund en hún mun þó aðeins koma út í litlu upplagi hér heima og er stefnan sett á Kínamarkað og sér Andrea fyrir sér að uppfæra bókina með árunum. „Þetta er einn af þeim hlutum sem renna aldrei út, fólk hættir aldrei að eignast börn.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×