Lífið

„Finnst geðveikt gaman að ég sé með bumbu og ég er bara svo ánægð að vera heilbrigð“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stuttmyndin Fellum Grímuna verður sýnd í opinni dagskrá á Stöð 2 í kvöld. Í myndinni stíga þjóðþekktir einstaklingar fram og lýsa baráttu sinni við meðal annars kvíða, meðvirkni og fullkomnunaráráttu.

Kvikmyndin er framleidd af fyrirtækinu Ekta Ísland sem er í eigu þeirra Jóhönnu Jakobsdóttur og Sigurbjargar Bergsdóttur.

Sjá einnig: Auðunn Blöndal fellir grímuna: Ímyndaði sér að vinir sínir baktöluðu sig

Meðal þeirra sem koma fram í myndinni er skemmtikrafturinn Anna Svava Knútsdóttir sem lýsir baráttu sinni við nagandi kvíða og slæma líkamsmynd. Í broti úr myndinni, sem sjá má hér að ofan, segir Anna að kvíðinn komi fram í hvert einasta skipti sem Anna stígur á stokk.

Alla jafna kemur Anna fram um helgar og segir hún að kvíðinn byrji á fimmtudegi þegar undirbúningurinn hefst. „Svo kemur föstudagurinn og ég vakna bara: „Ohh, þetta verður ömurlegt. Ég er ekki búin að undirbúa neitt. Ég er svo ömurleg. Af hverju er fólk að borga mér fyrir að koma? Þetta eru mistök og fer í gegnum í huganum hvern ég get hringt í til að leysa mig af eða hvort ég geti verið veik,“ segir Anna. 

Fær niðurgang af stressi

Kvíðinn ágerist einungis eftir því sem nær dregur. „Svo klukkan fimm er ég komin á gólfið, eldhúsgólfið, með kvíðahnút í maganum,“ útskýrir Anna. „Þetta er líkamlegt, ég get ekki andað og svo stuttu seinna fer ég á klósettið og fæ niðurgang,“ bætir hún við.

Í kjölfarið byrja sjálfsásakanirnar: „Svo reyni ég að taka mig saman og hugsa: „Hvað er að þér? Þú gerðir þetta síðustu helgi, þetta skiptir engu máli. Það verða allir fullir þarna. Þú ert ekki aðalatriðið, það er enginn að horfa á þig. Það man enginn eftir þér. Hvað er að þér, djöfulsins aumingi ertu að vera svona ömurlegt og þá verður kvíðinn ennþá meiri,“ segir Anna.

Þegar á hólminn er komið segist hún vera of stressuð til að geta yrt á neinn. „Svo fer ég upp á svið og um leið og einhver fer að hlæja verður allt gott og mig langar aldrei að fara. Svo þegar ég er búin langar mig ógeðslega mikið í partý og finnst lífið ógeðslega skemmtilegt. Og svo byrjar þetta aftur næstu vikuna.“

Finnst ógeðslega flott að vera með mjaðmir og bumbu

Í myndinni ræðir Anna einnig hina slæmu líkamsmynd sem þjakaði hana á yngri árum. Þannig hafi hún alltaf gengið í svörtum fötum og víðum peysum tl að fela vöxt sinn. Þá vildi hún ekki að fólk kæmi við sig og þótt erfitt þegar fólk faðmaði hana.

„Versta stund lífs míns, ég fæ ennþá hroll bara, það var góður dagur þegar ég komst inn í leiklistarskólann. Ég ætlaði að segja kærastanum mínum að ég komst inn og þá komu leiklistarnemar, eldri en ég hlaupandi á móti mér, og voru að kyssa mig og knúsa mig. Ég fór heim og hugsaði: „Ég ætla aldrei í þennan ógeðslega skóla,“ segir Anna Svava.

Þeir dagar séu nú að baki.

„Nú er ég bara ógeðslega fúl yfir því að hafa eytt svona mörgum árum í að þola ekki líkamann á mér því ég er með flottasta líkama í heimi. Núna klæði ég mig bara í svona lituð föt og mér finnst ógeðslega flott að ég sé með mjaðmir. Mér finnst geðveikt gaman að ég sé með bumbu og ég er bara svo ánægð að vera heilbrigð.“

Fjölmargir halda uppi falskri ímynd

Fellum Grímuna er forvarnarverkefni sem miðar að því að varpa ljósi á þá staðreynd að öll erum við skemmtilega mannleg og enginn er fullkominn. Hins vegar reynir fólk oft að halda uppi falskri ímynd en allt slíkt getur orðið áberandi í litlu þjóðfélagi eins og við búum í á Íslandi.

Myndin verður sýnd í opinni dagskrá á Stöð 2 í kvöld og nánari upplýsingar um Fellum grímuna má nálgast á Ektaisland.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×