Fótbolti

Hammarby með Hannes Þór í sigtinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes Þór Halldórsson gæti farið í sænsku úrvalsdeildina.
Hannes Þór Halldórsson gæti farið í sænsku úrvalsdeildina. vísir/andri marinó
Nýliðar Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta fylgjast grannt með Hannes Þór Halldórssyni, markverði íslenska landsliðsins og Sandnes Ulf í norsku B-deildinni í fótbolta.

Sænska liðið missir markvörðinn sinn, Johannes Hopf, í sumar, en tyrkneska liðið Genclerbirligi hefur sýnt þessum 27 ára gamla leikmanni áhuga.

Þetta kemur fram á fotbollskanalen.se, en þar segir að Hammarby hafi í huga að fá Hannes Þór í markið fyrir Hopf.

Hannes féll með Sandnes úr norsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en var kjörinn besti leikmaður liðsins og er nú fyrirliði þess.

Hann er búinn að fá á sig fimm mörk í fyrstu sjö umferðum B-deildarinnar, en Sandnes er búið að gera fimm jafntefli í fyrstu sjö leikjunum.

Samningur Hannesar rennur út eftir tímabilið og því ekki ólíklegt að norska liðið reyni að losa hann í sumar sýni Hammarby meiri áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×