Óvíst er með þátttöku Björgvins Páls Gústavssonar í leiknum gegn Danmörku í 16-liða úrslitunum á HM í Katar á morgun.
Björgvin, sem varði 14 skot í marki Íslands gegn Egyptalandi í gær, glímir við meiðsli auk þess sem hann hefur verið slappur að sögn Örnólfs Valdimarssonar, læknis íslenska landsliðsins.
„Bjöggi er smá tæpur í öxl og við erum að reyna að koma honum í gegnum það,“ sagði Örnólfur í samtali við Vísi.
„Það líka smá lasleiki í honum, en hinir eru fínir,“ sagði læknirinn en er einhver pest að ganga?
„Já, það er pest að ganga, eins og var á Íslandi og það eru örfáir búnir að vera með þannig pest hjá okkur.
„Þeir eru í meðferð við því og eru allir að jafna sig nema Bjöggi sem er í smá lægð út af því.
„Þetta byrjaði í fyrrakvöld og var aðallega í gær en hann stóð sig mjög vel í leiknum.
„Hann hvílir bara í dag og tekur réttu töflurnar á morgun og þá verður hann góður,“ sagði Örnólfur.
Leikur Íslands og Danmerkur í 16-liða úrslitunum hefst klukkan 18:00 á morgun en hægt verður að fylgjast með honum í beinni textalýsingu hér á Vísi.
Óvíst með þátttöku Björgvins gegn Dönum
Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar

Mest lesið

Sniðganga var rædd innan HSÍ
Handbolti




Brady óskaði Willum, Alfonsi og félögum til hamingju
Enski boltinn




Afturelding mætir Val í undanúrslitum
Handbolti
