Innlent

Halda Heimaey hreinni á meðan aðrir sofa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Helgi Reykjalín Jónsson, Hersir Haraldsson og Friðrik Harðarson.
Jón Helgi Reykjalín Jónsson, Hersir Haraldsson og Friðrik Harðarson. Vísir/KTD
Jón Helgi Reykjalín Jónsson, Hersir Haraldsson og Friðrik Harðarson sinna mikilvægu hlutverki á Þjóðhátíð sem örugglega fer framhjá flestum. Afar fáir voru á ferli um tíuleytið í morgun í miðbæ Heimaeyjar þegar drengirnir þrír voru á vappi að tína rusl.

Reiknað er með á annan tug þúsunda gesta til Eyja og á fjölmennum samkomum sem þessum getur sóðaskapur verið mikill.

„Við erum bara fegnir að vera ekki að tína rusl í Dalnum,“ sögðu skytturnar þrjár eldhressar. Sjálfir eru þeir starfsmenn bæjarvinnunnar í Vestmannaeyjum og hófu ruslatínslu klukkan níu í morgun. Reiknuðu þeir með að verða á hreinsunarvaktinni til eitt.

Aðspurðir um magn rusls samanborið við undanfarin ár sögðu þeir um svipað magn að ræða ef frá er talin bryggjan þar sem var sérstaklega sóðalegt um að litast. Alls eru um tíu bæjarstarfsmenn sem sjá til þess að bærinn sé snyrtilegur þegar fólk rankar við sér eftir skemmtun næturinnar en það er fólk á vegum ÍBV sem sér um að halda Dalnum sem hreinustum.

Stemningin var með eindæmum góð í Herjólfsdal í gær. Fjölmargir voru klæddir búningum og voru eldhressir þegar blaðamaður tók þá tali eins og sjá má í myndbandinu að neðan.


Tengdar fréttir

Fólkið sem passar okkur um verslunarmannahelgina

Fólkið sem stendur vaktina um verslunarmannahelgina biðlar til allra að fara sér hægt. Skuggahliðar þessarar mestu ferðahelgi ársins séu óhófleg neysla áfengis og vímuefna og slys og ofbeldis­verknaðir fylgi óhjákvæmilega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×