Lífið

Fékk götu nefnda Svarthöfði: "Gaman að fara út fyrir kassann“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Götunni Bratthöfða verður breytt í Svarthöfða.
Götunni Bratthöfða verður breytt í Svarthöfða.
Óli Gneisti Sóleyjarson lagði fram hugmyndina að því að götuheitið Svarthöfði yrði samþykkt í Reykjavík fyrir rúmum tveimur árum síðan. Hugmyndin var samþykkt í Umhverfis- og skipulagsráði í  gær.

„Fyrir rétt rúmum tveimur árum setti ég þessa hugmynd á Betri Reykjavík. Hún fékk nokkuð góðan stuðning og fór í ferli,“ segir Óli Gneisti á síðu sinni.

Óli Gneisti á Svarthöfðahjálm sem gestir á heimili hans vilja oft á tíðum prófa að máta.Vísir/Ernir
Hugmyndina segir Óli Gneisti í samtali við Vísi hafa kviknað þegar hann og mágur hans ræddu fyndin götuheiti en mágurinn er mikill aðdáandi Star Wars. Svarthöfði er einmitt einn aðalkarakterinn í kvikmyndunum en á ensku kallast hann Darth Vader.

„Ég á Svarthöfðahjálm heima sem gestir hafa mikinn áhuga á að skoða en hann er meiri aðdáandi, tekur þetta miklu alvarlegra heldur en ég.“ Óli Gneisti setti Svarthöfðahjálminn upp þegar Google-bíllinn keyrði í gegnum hverfi hans í Breiðholti.

„Ég og fjölskylda mín sáum bílinn koma og ég hljóp inn, sótti hjálminn og stillti mér upp. Markmiðið var einfaldlega að gleðja fólk og reyna að vera fyndinn,“ segir Óli og hlær. „Ég vona að það hafi tekist.“

Reykvíkingar státa nú af götu sem kallast Svarthöfði.Vísir/Ernir
Sjá einnig: Eldhressir Íslendingar á Google Street View

Íhaldssamir geta líka tekið í hugmyndina

„Ég setti hana auðvitað inn þegar Jón Gnarr var borgarstjóri og ég viðurkenni að ég bjóst við því að það myndi kannski hafa áhrif,“ útskýrir Óli Gneisti spurður um hvort hann hafi búist við því að tillagan yrði samþykkt.

„En mér heyrist vera almenn gleði hjá fólki með þetta. Þeir sem eru íhaldssamari kannski hugsa um Sturlungu þar sem nafnið kemur náttúrulega fyrir, Svarthöfði Dufgusson. Þó að við mágur minn höfum vissulega verið að hugsa um Star Wars. Við erum svona lágmenningarlegir.“

Svarthöfði stillti sér upp við Eyjabakka í Reykjavík.Vísir/GoogleStreetView
Þá maldar blaðamaður í móinn enda eru kvikmyndirnar Star Wars taldar til klassíkera af mörgum kvikmyndaáhugamanninum. „Jú, jú,“ segir Óli og hlær.

Dagur B. Eggertsson tilkynnti á Twitter í gær að götuheitinu Bratthöfði hefði verið breytt í Svarthöfða og því má segja að grín Óla og mágs hans hafi verið tekið alla leið.

„Mér finnst að götuheiti eigi að vera sem fjölbreyttust og skemmtilegust. Auðvitað er oft gott að hafa þemu í þessu en það er líka gaman að fara út fyrir kassann. Ég heyrði einnig hugmyndina Anakinn, það gæti verið næst á dagskrá,“ segir Óli Gneisti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.