Allt varð vitlaust á meðal stuðningsmanna Feyenoord þegar Mitchell te Vrede fékk rautt spjald fyrir brot á Kostas Manolas, leikmanni Roma.
Liðin þurftu að yfirgefa völlinn því inn á hann rigndi allskonar hlutum úr stúkunni, meðal annars stórum uppblásnum banana sem kastað var í áttina að Fílabeinsstrendingnum Gervinho, fyrrverandi leikmanni Arsenal.
Gervinho lét kynþáttníð heimamanna ekkert á sig á fá á meðan leik stóð og skoraði sigurmarkið, 2-1, fimm mínútum eftir að leik var haldið áfram. Með því skaut hann Roma áfram samanlagt, 3-2.
Lögreglan í Rotterdam fangelsaði 17 stuðningsmenn Feyenoord og einn Ítala fyrr um daginn, en borgarstjórinn í Rotterdam setti á neyðarlög fyrir leikinn skyldu svipaðir hlutir gerast og fyrir fyrri viðureign liðanna í Rómarborg.
Þar létu stuðningsmenn Feyenoord öllum illum látum. Þeir börðust við lögregluna á götum úti og skemmdu byggingar í Róm.
Það er morgunljóst að Feyenoord á vændum myndarlega sekt frá UEFA og mögulega þarf liðið að leika fyrir luktum dyrum næst þegar það spilar í Evrópukeppni.





