Viðskipti innlent

HS Orka hagnast um 679 milljónir

ingvar haraldsson skrifar
HS Orka hagnaðist um 679 milljónir á síðasta ári.
HS Orka hagnaðist um 679 milljónir á síðasta ári. vísir/valli
Hagnaður HS Orku á síðasta ári nam 679 milljónum króna samanborið við 433 milljóna tap árið 2013.

Munurinn á afkomu milli ára skýrist af stórum hluta af minni lækkun á virði afleiða um framtíðarvirði orkusölusamninga sem tengd eru álverði. Lækkunin í ár nam 1.556 milljónum en nam 4.138 milljónum á árinu 2013.

Rekstartekjur fyrirtækisins hækkuðu um 6 prósent og námu 7.479 milljónum á tímabilinu, samanborið við 7.031 milljónir króna árið 2013. EBITDA félagsins hækkaði um 5 prósent og var 2.738 milljónir árið 2014 samanborið við 2.603 milljónir árið 2013. „Tekjur hafa aukist talsvert á smásölumarkaði og hafa gert gott betur en að mæta lækkuðum tekjum frá stórnotendum,“ segir í tilkynningu.

Þá hækkaði rekstrarkostnaður um 6% eða sem nemur 359 milljónum milli ára. „Á kostnaðarhliðinni hefur rekstrarkostnaður orkuvera lækkað töluvert, orkukaup hafa aukist talsvert en flutningskostnaður lækkað örlítið. Þá hefur skrifstofu og stjórnunarkostnaður hækkað, fyrst og fremst vegna kostnaðar við rekstur dómsmála og undirbúnings gerðardómsmáls vegna orkusölusamnings við Norðurál í Helguvík sem reiknað er með að fari fram á vormánuðum 2016,“ segir í tilkynningu frá HS Orku.

HS Orka er 66,6 prósent í eigu Magma Energy Sweden og 33,4 prósent í eigu Jarðvarma slhf. sem nokkrir lífeyrissjóðir standa að.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×