Veiði

Sex laxar á land á fyrsta degi í Laxá í Leirársveit

Karl Lúðvíksson skrifar
Mynd: www.laxaleir.is
Laxá í Leirársveit opnaði í gær og þrátt fyrir að vatnsstaðan í ánni væri nokkuð há var nokkuð líf í ánni.

Vegna mikilla snjóalaga hafa verið töluverðar leysingar í hlýindum síðustu daga og það á varla eftir að breytast mikið núna þegar bæði hlýnar og rignir.  Það góða við vatnsstöðuna er að laxinn verður fljótur að fara upp ánna og dreifa sér en neikvæða hliðin er að mikið vatn slær út nokkra veiðistaði.  Allir laxarnir sem komu á land veiddust í Laxfossi en auk þess sluppu nokkrir af á öðrum stöðum.  Flestir af löxunum sem náðust voru grálúsugir.

Af öðrum ám má nefna að veiðin í Blöndu er komin í 59 laxa en þar er ennþá aðeins veitt á fjórar stangir og er þetta alveg viðunandi veiði miðað við árstíma.  Þverá og Kjarrá er komin í 62 laxa en þar hafa veiðimenn orðið varir við auknar göngur sem færir meira líf í ánna en holl sem hóf veiðar í gær náði 10 löxum á fyrstu tveimur vöktunum. Laugardalsá er líka komin af stað og þar veiddust nokkrir vænir laxar í opnun og fleiri sýndu sig í ánni. 



 





×