Innlent

Öfgasamtökin PEGIDA komin til Íslands

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Síða samtakanna var opnuð á sunnudag.
Síða samtakanna var opnuð á sunnudag.
Rúmlega tvö hundruð hafa látið sér líka við Facebook síðu öfgasamtakanna PEGIDA á Íslandi. Hreyfingin er þýsk að uppruna og berst gegn meintum íslömskum áhrifum í Evrópu. Mbl.is greindi frá þessu í morgun og segir að Facebook-síðan sé stofnuð á sunnudag.

Facebook-síðan er stofnuð undir heitinu PEGIDA á Íslandi og í lýsingu hennar segir að um sé að ræða samtök fólks gegn islamvæðingu Evrópu. Meðal mynda sem deilt er á síðunni er samsett mynd af merki Reykjavíkurborgar, mosku og textanum „STOP THE REYKJAVIK MOSQUE!“, sem á íslensku myndi útleggjast: „STÖÐVUM MOSKUNA Í REYKJAVÍK!“

„Við munum birta hér fréttatengt efni frá viðurkenndum erlendum fréttaveitum sem tengist innreið og uppgang islam í Evrópu,“ segir í lýsingu hópsins. „Fréttatengt efni sem fjölmiðlar á Íslandi birta ekki bæði til þöggunar og vegna pólitísks rétttrúnaðar.“

Ekki er gefið upp hverjir hafa látið sér líka við síðu samtakanna. 

Samtökin hafa undanfarið staðið fyrir mótmælum gegn innflytjenda- og flóttamannastefnu yfirvalda. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur hvatt landa sína að taka ekki þátt í mótmælum samtakanna. Fjallað var um mótmæli PEGIDA á mánudag í Fréttablaðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×