Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn braut fjarskiptalög

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Póst- og fjarskiptastofnun telur Sjálfstæðisflokkinn hafa brotið fjarskiptalög.
Póst- og fjarskiptastofnun telur Sjálfstæðisflokkinn hafa brotið fjarskiptalög. vísir/pjetur
Sjálfstæðisflokkurinn braut lög um fjarskipti er hann sendi sms-skilaboð fyrir beina markaðssetningu á kjördag 2014.

Að auki braut flokkurinn gegn lögunum með því að hringja í númerið þrátt fyrir að það væri merkt þannig í símaskrá að óskað væri eftir að fá ekki símtöl sem eru liður í markaðssetningu. Þetta kemur fram í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar.

Í skilaboðunum stóð meðal annars: „Ertu buin/n ad kjosa? Ef ekki tha verdur kjorstodum lokad kl. 22:00. Setjum X vid D. XD!“

Meðlimur í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, taldi sig ekki hafa veitt samþykki sitt til að taka á móti slíkum sendingum og kvartaði til Póst- og fjarskiptastofnunar. Hún taldi samskiptin falla undir beina markaðssetningu.

Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki sýnt fram á að hafa aflað fyrir fram samþykkis fyrir sendingu rafrænna skilaboða.

Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir úrskurðinn koma flokknum á óvart.

„Verði úrskurðurinn staðfestur mun það hafa mikil áhrif á starfsemi allra frjálsra félaga í landinu, bæði stjórnmálasamtaka og allra annarra félaga,“ segir Þórður sem kveður Sjálfstæðisflokkinn munu liggja yfir ákvörðuninni með lögfræðingum sínum.

Þórður telur ekki ólíklegt að úrskurðurinn verði kærður til áfrýjunarnefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×