Lífið

„Ég held ég sé svona fimm árum á eftir“

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Fjölmiðlamaðurinn Auðunn Blöndal hefur skemmt þjóðinni á ýmsan hátt. Hann er þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa við það sem hann elskar að gera í gegnum tíðina.
Fjölmiðlamaðurinn Auðunn Blöndal hefur skemmt þjóðinni á ýmsan hátt. Hann er þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa við það sem hann elskar að gera í gegnum tíðina. vísir/pjetur
Fjölmiðlamaðurinn Auðunn Blöndal stendur á miklum tímamótum, því í dag fagnar hann 35 ára afmælinu sínu. „Þetta er svakalega fljótt að líða. Ég man þegar ég var yngri, þá töluðu foreldrar mínir mikið um það hvað tíminn líður hratt. Maður skilur það þegar maður eldist,“ segir Auðunn.

Hann var staddur í Leifsstöð þegar blaðamaður náði tali af honum, á leið til Las Vegas til að fylgjast með Gunnari Nelson fyrir sjónvarpsþátt sem hann vinnur að. „Við verðum bara að vinna eins og skepnur þarna úti. Maður skálar kannski í rauðvíni eftir góðan vinnudag,“ segir Auðunn spurður út í hvort hann ætli að gera eitthvað í tilefni dagsins.

Hann fór þó í keilu og á írska daga á Akranesi með fjölskyldunni um helgina. „Maður heldur kannski létta veislu þegar maður kemur heim,“ bætir Auðunn við.

Hann segist þó ekki finna fyrir því að hann sé að eldast mikið, nema að nú fyrst finni hann fyrir því að hann sé kominn á fertugsaldurinn. „Ég held ég sé svona fimm árum á eftir. Þegar ég var þrítugur leið mér eins og ég væri 25 ára. Nú líður mér í fyrsta sinn eins og ég sé kominn á fertugsaldurinn.“

Spurður út í heilsuna segist hann hafa verið í svipuðu líkamlegu formi undanfarin fimm ár, enda duglegur að stunda líkamsrækt. „Ég finn aðallega fyrir aldrinum þegar ég er að spila fótbolta á gervigrasi. Ég spilaði leik á gervigrasi fyrir skömmu og daginn eftir leið mér eins og ég væri sextugur,“ segir Auðunn og hlær.

Hann hefur í gegnum tíðina, eins og flestir vita, starfað við fjölmiðla og segist vera afar þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa við það sem hann elskar að gera. „Lífið er búið að vera frábært. Það að fá að starfa við það sem maður elskar að gera er æðislegt. Ég get ekki kvartað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.