Innlent

Lét lífið í sjóslysi á Vestfjörðum

Snærós Sindradóttir skrifar
Hraðbáturinn Sædís sést hér koma að bryggju í Bolungarvík í gærmorgun með sjómennina þrjá sem björguðust.
Hraðbáturinn Sædís sést hér koma að bryggju í Bolungarvík í gærmorgun með sjómennina þrjá sem björguðust. vísir/hafþór gunnarsson
„Manni líður ekki vel. Aðstæðurnar voru hræðilegar,“ segir Jóhann Sigfússon, sjómaður á Ísafirði sem bjargaði þremur mönnum af kili Jóns Hákons BA-60 sem fórst í gærmorgun.

Jóhann var á bátnum Mardísi sem kom fyrstur á vettvang, um klukkustund eftir að báturinn hvarf af skjá sjálfvirku tilkynningaskyldunnar.

„Mennirnir voru búnir að bíða þarna lengi. Auðvitað er maður ánægður að hjálpa en manni líður ekki vel. Ég hef aldrei upplifað annað eins og þetta,“ segir Jóhann. Hann segir að sjómennirnir þrír, sem þá hafi verið búnir að missa frá sér einn mann, hafi verið hræddir, kaldir og hraktir. Skipverjar á Mardísi komu sjómönnunum þremur í hraðbát sem sigldi með þá inn til Bolungarvíkur. Sjálfir hófu þeir leit að manninum sem farið hafði í sjóinn og fundu hann látinn.

Maðurinn sem lést var rúmlega sextugur. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru skipverjar að draga inn veiðarfæri bátsins þegar eitthvað gerðist sem olli því að bátnum hvolfdi.

Veður var ágætt á svæðinu, lítil ölduhæð og hæg norðlæg átt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×