Innlent

Snjór í desember meiri en að jafnaði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/stefán
Desembermánuður var kaldur suðvestanlands en hiti var yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 í öðrum landshlutum, en undir meðallagi síðustu tíu ára um land allt. Nokkuð umhleypinga- og illviðrasamt var í veðri og úrkoma víast yfir meðallagi. Þá var snjór meiri en að jafnaði í desember. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Meðalhiti í Reykjavík var -0,7 gráður sem er -0,5 gráðum kaldara en meðaltal áranna 1961 til 1990 og -1,4 gráðum kaldara en meðaltal síðustu tíu ára. Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn -1,4 stig sem er 0,5 stigum yfir meðalhitanum 1961 til 1990 en -0,7 stigum undir meðalhita í desember síðustu tíu árin.

Kaldast var í uppsveitum á Suðurlandi en hlýjast norðaustan- og austanlands. Meðalhiti var hæstur í Surtsey, 2,2 stig, en lægstur í Sandbúðum, -7,7 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Svartárkoti og í Möðrudal, -4,6 stig.

Þá var hæsti hiti mánaðarins 16,0 á Skjaldþingsstöðum 29. desember og sá lægsti mældist -20,7 stig á Brúarjökli 12. desember. Hitinn á Skjaldþingsstöðum er nýtt landsdægurmet og raunar hæsti hiti sem mælst hefur á landinu á milli jóla og nýárs. Aflesturinn á kvikasilfursmælinn á Skjaldþingsstöðum morguninn eftir, 14,5 stig, er einnig nýtt dægurmet fyrir þann dag, þann 30. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×