Fótbolti

Sex leikir án sigurs hjá Elmari og félögum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Theodór Elmar Bjarnason.
Theodór Elmar Bjarnason. vísir/getty
Ekkert gengur hjá Theodór Elmari Bjarnasyni, landsliðsmanni í fótbolta, og félögum hans í AGF í dönsku úrvalsdeildinni þessar vikurnar.

Liðið tapaði í kvöld á heimavelli gegn SönderjyskE, 2-1, og hefur nú ekki unnið leik í síðustu sex umferðum.

Sönderjyske komst yfir á 25. mínútu leiksins en Mate Vatsadze jafnaði metin fyrir heimamenn fjórum mínútum síðar. Fjórum mínútum fyrir leikslok tryggði Jeppe Simonsen svo gestunum sigurinn, 2-1.

Elmar spilaði allan leikinn fyrir AGF, en hann hefur verið á meðal bestu manna liðsins á tímabilinu.

Baldur Sigurðsson, fyrrverandi fyrirliði KR, kom inn á sem varamaður á 79. mínútu og spilaði á miðjunni. Hann hefur mikið spilað sem bakvörður hjá SönderjyskE þegar hann fær að spila.

AGF er í sjötta sæti deildarinnar með tíu stig en SönderjyskE henti sér upp í þriðja sætið með sigrinum; liðið með fimmtán stig líkt og FC Kaupmannahöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×