Erlent

Hæstiréttur Ítalíu staðfestir sýknudóm yfir Berlusconi

Atli Ísleifsson skrifar
Silvio Berlusconi gegndi embætti forsætisráðherra Ítalíu á árunum 1994 til 1995, 2001 til 2006 og 2008 til 2011.
Silvio Berlusconi gegndi embætti forsætisráðherra Ítalíu á árunum 1994 til 1995, 2001 til 2006 og 2008 til 2011. Vísir/AFP
Hæstiréttur Ítalíu hefur staðfest sýknudóm yfir fyrrum forsætisráðherranum Silvio Berlusconi vegna ásakana um að hafa misnotað vald sitt og greitt fyrir þjónustu ólögráða vændiskonu í svokölluðum „bunga bunga“ veislum sínum.

Berlusconi var árið 2013 dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að hafa greitt hinni sautján ára Karima El-Mahroug fyrir kynlíf. Málinu var þá áfrýjað til næsta dómsstigs þar sem Berlusconi var sýknaður. Hæstiréttur Ítalíu hefur nú staðfest þann dóm.

Í frétt BBC segir að dómstóllinn hafi því hafnað kröfum saksóknara í málinu um að snúa við sýknudómnum og að málið verði tekið til meðferðar á ný.

Berlusconi gegndi embætti forsætisráðherra Ítalíu á árunum 1994 til 1995, 2001 til 2006 og 2008 til 2011.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×