Innlent

Byrjað að rífa nýuppgert sumarhús forstjóra OR við Þingvallavatn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Félagarnir Hannes og Óskar, sem saman eru kallaðir Hanskar af gárungunum, sýndu engin vettlingatök þegar þeir byrjuðu í gær að rífa klæðninguna sem þeir negldu utan á forstjórabústað Orkuveitunnar í Riðvík á árinu 2012.
Félagarnir Hannes og Óskar, sem saman eru kallaðir Hanskar af gárungunum, sýndu engin vettlingatök þegar þeir byrjuðu í gær að rífa klæðninguna sem þeir negldu utan á forstjórabústað Orkuveitunnar í Riðvík á árinu 2012. Vísir/Pjetur
Hafist var handa í gær við niðurrif á forstjórabústað Orkuveitu Reykjavíkur við Þingvallavatn. Aðeins eru liðin þrjú ár síðan endurbótum á húsinu lauk. Þær kostuðu 8,9 milljónir króna frá og með árinu 2008.

Bústaðurinn er byggður árið 1946 og fylgdi með þegar Hitaveita Reykjavíkur keypti Nesjavallajörðina 1964. Húsið hefur fyrst og fremst verið ætlað fyrir forstjóra fyrirtækisins.

Afnema átti öll sérréttindi stjórnenda OR samkvæmt ákvörðun sem tekin var í kjölfar þess að ný stjórn tók við sumarið 2010. Bjarni Bjarnason, sem settist í forstjórastólinn á árinu 2011, kveðst sjálfur hafa nýtt húsið, þar af tvisvar sumarið 2012.

„Fyrri ferðin er vegna vinnunnar en sú síðari fer í bága við stranga skilgreiningu á afnámi sérréttinda,“ sagði í svari Bjarna við fyrirspurn Fréttablaðsins í september í fyrra.

Þá sagði Bjarni að millistjórnendur í fyrirtækinu hefðu nýtt bústaðinn fram á síðasta sumar.

Sömu tveir mennirnir og luku við seinni áfanga í að klæða bústaðinn að utan fyrir þremur árum tóku nú að sér að rífa húsið. Verkið fengu þeir eftir útboð. Sögðu þeir í gær dálítið sérstakt að vera mættir á staðinn svo skömmu síðar til að rífa klæðninguna utan af húsinu aftur.

Öllum ummerki um bústaðinn eiga að vera horfin 31. ágúst. Lóðin verður grædd upp með mosa sem fenginn er af framkvæmdasvæðum orkuveitunnar í Hverahlíð.

„Fréttir af bústaðnum í Fréttablaðinu og á Stöð 2 settu hann í kastljósið. Ekki þurfti djúpa greiningu á málinu til þess að komast að þeirri niðurstöðu að bústaðurinn skyldi víkja, enda stendur hann nánast ofan á vatnsbólinu á Grámel og liggur illa við sprungustefnum í hrauninu,“ útskýrði Bjarni forstjóri í svari sínu í september.

Og niðurrifið hófst sem sagt í gær. Eins og fram kemur að framan voru 8,9 milljónir króna lagðar í endurnýjun á forstjórabústaðnum á árunum 2008 til 2012. Meðal annars voru gluggar endurnýjaðir og ný klæðning sett utan á húsið. Baðherbergi var tekið í gegn. Sturtuklefa úr því á nú að koma fyrir í sumarhúsi starfsmannafélags OR.

Tíu sumarbústaðir í einkaeigu sem standa í landi Orkuveitunnar á Nesjavallajörðinni eiga með tímanum einnig að hverfa vegna vatnsverndarsjónarmiða. Samningar hafa staðið yfir við eigendur þeirra húsa um áframhaldandi leigu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er nú rætt um 15 ára leigutíma en það fékkst ekki staðfest hjá Orkuveitunni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×