Gildandi lög um fóstureyðingar eru frá árinu 1975, en samkvæmt þeim eru konur enn formlega í þeirri stöðu, vilji þær enda meðgöngu sína, að tveir óskyldir aðilar, tveir læknar, eða læknir og félagsráðgjafi þurfi að samþykkja beiðni þeirra um fóstureyðingu.

Undir það tekur Silja Bára Ómarsdóttir aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, sem nýlega gaf út bók sem byggir á reynslusögum kvenna sem farið hafa í fóstureyðingar hér á landi.
„Við erum með dæmi frá konum sem að tala um niðurlægingu, að þurfa að spyrja einhvern annan og efann sem vaknar hjá konum þegar þær fara í gegnum þetta ferli. Það stendur á blaðinu umsókn, það lýsir því mjög skýrt að það er ekki þín ákvörðun. Ég hef líka hitt konu sem lýsir því að hún var hreinlega komin inn á deild og það átti að fara að framkvæma fóstureyðinguna þegar læknarnir skipta um skoðun og það er bakkað út úr. Ef að lögin eru svona þá er mjög auðvelt að skapa ástand þar sem konur ráða þessu ekki sjálfar, “ segir Silja Bára.
Þetta sé úr takti við nútímasjónarmið.
„Mér finnst þetta rangt. Þetta er eitt mikilvægasta skref í réttindabaráttu kvenna, aðgangur að öruggum fóstureyðingum. Að konur geti ekki ákveðið sjálfar hvort og hvenær þær eignast börn er hamlandi, það takmarkar þeirra sjálfsákvörðunarrétt og skerðir þeirra lífsgæði,“ segir Silja Bára.