Innlent

Tryggingargjaldið verður ekki lækkað

Sæunn Gísladóttir skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir vel koma til greina að lækka tryggingargjaldið á kjarasamningstímabilinu.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir vel koma til greina að lækka tryggingargjaldið á kjarasamningstímabilinu. vísir/gva
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra segir ekkert svigrúm til að lækka tryggingargjaldið strax um áramótin. Hann telur kröfu um lækkun gjaldsins til marks um að laun hafi hækkað of mikið í síðustu kjarasamningum. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að lækkun tryggingargjaldsins sé skilvirkasta mótvægisaðgerðin til að lágmarka skaðleg áhrif kostnaðarhækkana.

Í dag greiða atvinnurekendur 7,5% af launum hvers starfsmanns í tryggingargjald. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og forseti Alþýðusambands Íslands hafa skorað á ríkisstjórnina að lækka gjaldið til að koma til móts við þær launahækkanir sem fylgja nýjum kjarasamningum. Þeir vilja að gjaldið lækki strax á næsta ári.

Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri SA
„Við myndum stefna ríkinu beint í hallarekstur ef við tækjum 2,5% af tryggingargjaldinu strax á næsta ári eins og verið er að tala um,“ segir Bjarni. Hann segir þó koma til greina að lækka tryggingargjaldið á næstu árum.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að ekki verði hægt að ganga frá samkomulagi um þær viðbótar kostnaðarhækkanir sem SALEK samkomulagið feli í sér án nauðsynlegra mótvægisaðgerða. „Fjármálaráðherra bendir réttilega á að launahækkanir séu orðnar allt of miklar. Þess vegna höfum við gert þessa kröfu um mótvægisaðgerðir til að lágmarka skaðleg áhrif af allt of miklum kostnaðarhækkunum." Þorsteinn segir að ýmsar mótvægisaðgerðir séu í boði. „Við höfum þó bent á að lækkun tryggingargjalds sé skilvirkasta aðferðin þar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×