Handbolti

Bjarni Fritzson: Dómararnir bara með dónaskap

Siguróli Sigurðsson skrifar
Bjarni Fritzson.
Bjarni Fritzson. Vísir/Andri Marinó
Bjarni Fritzson, spilandi þjálfari ÍR, var langt frá því að vera sáttur eftir að hafa þurft að þola þriggja marka tap á Akureyri í kvöld en norðanmenn tryggðu sér með því oddaleik í Austurberginu á sunnudaginn.

„Við vorum komnir með leikinn í okkar hendur en tökum slæmar ákvarðanir á þeim kafla og þannig tapast þetta. Þetta hefði alveg getað verið okkar dagur en þá hefðum við þurft að slútta betur. Við vorum að spila vel þar til það voru fimm mínútur eftir og þá förum við í einhverja steypu,“ sagði Bjarni.

Leikurinn var afar kaflaskiptur og skiptust liðin á að skora ekki í fleiri mínútur í einu. Bjarni taldi það vera sök dómaranna, að þeir væru að flauta leikinn kaflaskiptan:

„Ég hef bara ekki séð annað eins í allan vetur. Það voru dómar hérna sem ég skil ekki. Leikurinn er kaflaskiptur því að þeir taka í taumana. Það er ekkert samræmi milli helminga“ sagði Bjarni og hélt áfram:

„Þeir eru á tíma að flauta okkur út úr þessum leik. Þetta eru 8-liða úrslit sem að við höfum verið að berjast fyrir í allan vetur og svo fáum við svona. Þetta er ekki ásættanlegt. Það er ekki hægt að bjóða mönnum sem leggja svona mikla vinnu í veturinn upp á svona dómara," sagði Bjarni.

Jón Heiðar Gunnarsson fékk umdeilt rautt spjald og hafði Bjarni sína skoðun á því og hvernig dómararnir tóku á málinu:

„Síðan er ekki hægt að tala við þá [dómarana innsk. blm.]. Þeir eru bara með dónaskap og henda mönnum hérna útaf með rautt spjald þegar menn eru að reyna að fá útskýringu einhverju, sem er alveg ótrúlegt. Þetta var bara slæmur árekstur, þetta er bara einn dómur af fjölmörgum. Þetta er það ótrúlegasta sem ég hef séð.Þeir dæma eitthvað öðru megin, og allt annað hinum megin – ekkert samræmi. Það er mjög leiðinlegt að upplifa að maður sé að spila leik sem er ekki sanngjarn og heiðarlegur.“ sagði Bjarni gríðarlega svekktur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×