Enski boltinn

Carragher: Manchester-slagurinn er í dag stærri en á Merseyside

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Daley Blind og Wayne Rooney reyna að ná boltanum af Sergio Agüero í leiknum á Etihad-vellinum fyrr í vetur.
Daley Blind og Wayne Rooney reyna að ná boltanum af Sergio Agüero í leiknum á Etihad-vellinum fyrr í vetur. vísir/getty
Seinni Manchester-slagur tímabilsins á milli United og City fer fram á sunnudaginn þegar lærisveinar Louis van Gaal taka á móti samborgurum sínum á Old Trafford.

Hvorugt liðið er að berjast af alvöru um Englandsmeistaratitilinn en leikurinn getur haft gríðarleg áhrif á baráttuna um Meistaradeildarsæti.

Jamie Carragher, fyrrverandi miðvörður Liverpool sem starfar sem sparkspekingur Sky Sports, svarar nokkrum spurningum um leikinn á heimasíðu Sky Sports og er þar fyrst spurður hvort Robin van Persie komi inn í byrjunarliðið.

„Hann byrjar ekki í Manchester-slagnum. United líður vel í því kerfi sem það er að spila núna með Rooney fremstan. Rooney er maðurinn þó Van Persie eigi gott samband við Van Gaal,“ segir Carragher en hvað með Di María sem gaf stoðsendingu eftir að koma inn á gegn Aston Villa?

„Van Gaal lætur Di María ekki byrja. Hann hefur sýnt að ef liðið vinnur velur hann sama lið í næsta leik. Ég bjóst við að Di María kæmi inn í liðið fyrir Liverpool-leikinn en hann hélt sig við Juan Mata sem skoraði tvö mörk.“

Sem leikmaður spilaði Jamie Carragher ósjaldan í Merseyside-slagnum þar sem Liverpool og Everton eigast við, en er Manchester-slagurinn nú orðin stærri nágrannaslagur?

„Ég hef alltaf sagt að Merseyside-slagurinn sé stærri en sá í Manchester því svo oft var Manchester City lið sem fór upp og niðru á milli deilda,“ segir Carragher.

„En það er engin spurning að í dag er Manchester-slagurinn stærri af þeirri einföldu ástæðu að bæði lið hafa undanfarin ár verið að keppa um titla. Það gerir hann aðeins merkilegri,“ segir Jamie Carragher.


Tengdar fréttir

Kompany: Góður tími til að mæta Manchester United

Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, fagnar því að næsti leikur liðsins sé á móti nágrönnunum í Manchester United en liðin hafa verið á leiðinni í sitthvora áttina á undanförnum vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×