Skoðun

Fellur ríkisstjórnin á læknadeilunni?

Ragnar Victor Gunnarsson skrifar
Sá sem hér ritar er sjálfstætt starfandi sérfræðingur í heimilislækningum og einn af fáum læknum á landinu sem ekki á aðild að núverandi kjarasamningaviðræðum ríkisins við lækna. Engu að síður fylgist ég grannt með gangi viðræðna eins og margir landsmenn og hef áhyggjur af stöðu mála.

Vakið hefur undrun mína að viðsemjendur lækna skuli tjá sig um gang mála í fjölmiðlum með óábyrgum hætti og t.d. heyrðist nefnt að læknar færu fram á 50% launahækkun, sem mun vera fjarri lagi. Samninganefnd lækna hefur hins vegar sýnt yfirvegun og engar tölur nefnt við blaðamenn enda eiga viðræður heima við samningaborðið og hvergi annars staðar, ekki síst eftir að ríkissáttasemjari hefur málið á sínum snærum.



Nú blasir við að ekki hefur náðst samkomulag og stefnir í frekari verkfallsaðgerðir, sem eru læknum á móti skapi en ósveigjanleiki viðsemjanda knýr þá til verka. Laun lækna hafa ekki fylgt launaþróun í landinu, þeir eru undirmannaðir, nýliðun er nánast engin og því verður ríkisstjórnin að taka á sig rögg og semja við lækna. Ekkert annað kemur til greina.

Heyrst hefur að ríkisstjórnin sé að velta fyrir sér að setja lög á aðgerðir lækna. Fari svo hygg ég að þá fyrst verði fjandinn laus. Læknar eru seinþreyttir til vandræða en sú ákvörðun yrði einfaldlega til þess að stór hluti læknahópsins myndi segja starfi sínu lausu. Í Svíþjóð eru læknar eina viku að vinna sér inn fyrir mánaðardagvinnulaunum læknis hérlendis. Þetta er staðreynd.

Þorri almennings styður lækna í téðri kjarabaráttu og lagasetning á aðgerðir lækna hefði vafalaust í för með sér að ríkisstjórnin myndi fyrr eða síðar hrökklast frá völdum. Því segi ég við ráðamenn: fyrir alla muni semjið við lækna. Slökkva þarf elda.

Deilan snýst ekki einvörðungu um að halda læknum á landi voru, heldur að gera kleift að ungir íslenskir sérfræðilæknar erlendis geti hugsað sér að flytja heim. Staðan á Landspítalanum er grafalvarleg og enn verra er ástandið á heilsugæslu í þétt- og dreifbýli. Breyta má þessu ástandi með því að semja sem fyrst við lækna.




Skoðun

Sjá meira


×