Enski boltinn

Pellegrini: Þurfum að kaupa stórstjörnu í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pellegrini stýrir Manchester City í 100. sinn gegn Crystal Palace í kvöld.
Pellegrini stýrir Manchester City í 100. sinn gegn Crystal Palace í kvöld. vísir/getty
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að félagið þurfi að kaupa ofurstjörnu í sumar.

Meðal leikmanna sem eru orðaðir við Englandsmeistarana eru Kevin De Bruyne hjá Wolfsburg, Juventus-maðurinn Paul Pogba og Raheem Sterling, leikmaður Liverpool.

„Stórlið þurfa að kaupa stórstjörnur. Það er erfitt að gera það á hverju ári en það er nauðsynlegt annað hvort ár,“ sagði Pellegrini en City var gagnrýnt fyrir slök leikmannakaup í sumar.

„Ég er ekki bara að tala um Manchester City. Ef þú horfir á Real Madrid, Manchester United, Barcelona, Chelsea og Bayern München - öll stóru liðin - þá kaupa þau öll stórstjörnur. Það er mikilvægt að hafa stór nöfn í liðinu þínu.“

City hefur ekki náð að fylgja eftir árangrinum frá síðustu leiktíð þegar liðið varð Englands- og deildarbikarmeistari. Lærisveinar Pellegrini eru dottnir út úr ensku bikarkeppninni og Meistaradeild Evrópu og eru komnir niður í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, níu stigum á eftir toppliði Chelsea.

City getur endurheimt 2. sætið og minnkað forystu Chelsea niður í sex stig með sigri á Crystal Palace á heimavelli í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×