Innlent

Veður og færð í dag: Betra að leggja af stað fyrripart dags

Bjarki Ármannsson skrifar
Vegir eru að heita má auðir um allt land.
Vegir eru að heita má auðir um allt land. Vísir/GVA
Því fyrr sem lagt er af stað heim úr páskafríinu í dag, því betri eru akstursskilyrðin. Þetta segir í spá vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Í dag er yfirleitt von á hæglætisveðri og lítilli úrkomu um land allt fyrir hádegi. Síðdegis er hins vegar spáð vaxandi suðvestanátt með skúrum og síðar éljum.

Framan af degi verður hiti um tvö til tíu stig með suðaustan fimm til þrettán metrum á sekúndu og rigning eða súld sunnan og vestan til á landinu. Hægari vindur verður þó norðaustan til og þurrt að kalla þar. Síðdegis gengur svo í suðvestan átta til fimmtán stig með skúrum en bjartviðri er spáð á austanverðu landinu.

Í kvöld er svo spáð suðvestan tíu til átján vestan til á landinu og él. Enn meira mun svo bæta í vindinn í nótt. Þá fer veður kólnandi og hiti verður um núll til fimm stig í kvöld.

Samkvæmt Vegagerðinni eru vegir að heita má auðir um allt land. Þó eru stöku hálkublettir á heiðum og hálsum á Vesturlandi og Vestfjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×