Tveir menn hafa verið ákærðir í tengslum við morðið á rússneska stjórnmálamanninum Boris Nemtsov. Mennirnir voru handteknir í gær og færðir fyrir dómara í dag en þeir báðir frá Tsjetsjeníu. Mennirnir eru sakaðir um að hafa skipulagt og framið morðið en þrír aðrir eru einnig í haldi rússnesku lögreglunnar grunaðir um aðild að málinu.
Þeir verða væntanlega færðir fyrir dómara síðar í dag. Nemtsov var skotinn til bana í Moskvu á föstudag í síðustu viku en hann var einn helsti andstæðingur Vladimir Pútíns forseta Rússlands.
Samkvæmt AP fréttaveitunni munu þrír aðrir fara fyrir dómara í dag, en ekki liggur fyrir hvernig þeir tengjast málinu.
Ákærðu mennirnir tveir heita Zaur Dadaev og Anzor Gubashev. Dadaev er sagður vera fyrrverandi hermaður sem barðist í Tsjetsjeníu en Gubashev vann fyrir öryggisfyrirtæki í Moskvu.