Vinirnir Ásta Ósk Hlöðversdóttir og Sölvi Dúnn Snæbjörnsson vinna nú hörðum höndum að því að opna eitt minnsta brugghús landsins í Grafarholti.
Fáist öll leyfi er ráðgert að hefja framleiðslu í haust og brugga 2.000 til 2.500 lítra á mánuði. Til samanburðar bruggar Ölgerð Egils Skallagrímssonar tæplega 200 þúsund lítra af Egils Gulli, einum vinsælasta bjór landsins, á mánuði.
Sölvi segir að áhersla verði lögð á nýbreytni við bruggun. „Við ætlum að reyna að brugga nýjan bjór allt að mánaðarlega og vera svo með nokkrar bjórtegundir í stanslausri framleiðslu,“ segir Sölvi.
Sölvi segir minni framleiðslu skapa aukinn sveigjanleika. „Þá getur maður prófað skrítnari bjór án þess að eiga það á hættu að fara á hausinn. Hver bruggun kostar þá miklu minna en hjá stóru brugghúsunum. Þetta verður mjög tilraunakennt,“ segir Sölvi.
Fyrst um sinn stefna þau að því að selja afurðir sínar á bjórbari bæjarins en í framhaldinu að komast að í verslunum ÁTVR. „Við verðum þá langminnsti bjórframleiðandinn í ríkinu,“ segir Sölvi.
