Viðskipti innlent

Al-Thani málið í Hæstarétti: Telur að jákvæð fjölmiðlaumfjöllun hafi haft áhrif á neyðarlán Seðlabankans

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson.
Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson. Vísir/Vilhelm
Björn Þorvaldsson, saksóknari, fer fram á að refsing yfir sakborningum í Al-Thani málinu verði þyngd. Fer hann fram á að Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson verði dæmdir í 6 ára óskilorðsbundið fangelsi. Það er hámark refsirammans gerist menn sekir um umboðssvik.

Þá fer saksóknari fram á að Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson verði dæmdir í 5 ára óskilorðsbundið fangelsi. Hreiðar Már fékk 5 og hálfs árs dóm í héraði í desember 2013, Sigurður fimm ára dóm, Ólafur þrjú og hálft ár og Magnús þriggja ára fangelsisdóm.

Al-Thani málið á rætur að rekja til hlutabréfakaupa sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani hinn 22. september 2008 en félag hans keypti 5,01 prósenta hlut í Kaupþingi banka fyrir 25,7 milljarða króna með láni frá bankanum.

Var mál sérstaks saksóknara byggt á því að um sýndarviðskipti hefði verið að ræða til að halda uppi hlutabréfaverði í Kaupþingi og búa til falska eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum.

Saksóknari sagði fyrir Hæstarétti í morgun að ákærðu í Al-Thani málinu hefðu ekki aðeins sagt hálfsannleikann um hlutabréfakaup sjeiksins í september 2008, heldur hefðu þeir einnig gefið til kynna að fjármagnið hefði komið inn í bankann frá Katar og að Al-Thani hefði staðið einn að kaupunum. Vísaði saksóknari þar í misvísandi ummæli í fjölmiðlum sem voru til þess fallin að gefa slíkt til  kynna.

Sjá einnig: Tekist á um hleranir, trúverðugleika vitna og meint vanhæfi dómara.

„Upplýsingar sem fjárfestar fengu voru einhvers konar glansmynd”


Sagði saksóknari að ekki hafi verið gefnar réttar upplýsingar um stöðu bankans í september 2008. Bankinn hafi í raun staðið höllum fæti en á tilkynningum til fjölmiðla hafi mátt ráða að bankinn stæði vel.

„Ákærðu tókst afar vel að draga upp jákvæða mynd af viðskiptunum. [...] Það má til dæmis sjá í fyrirsögn Fréttablaðsins 23. september 2008 “Milljarðar frá Mið-Austurlöndum.” [...] Upplýsingarnar sem fjárfestar fengu voru einhvers konar glansmynd og líkleg til þess fallin að auka tiltrú þeirra á bankann,” sagði Björn. 



Þá vísaði saksóknari einnig í framburð blaðamannanna Þorbjörns Þórðarsonar og Örnu Schram fyrir héraðsdómi. Bæði sögðu þau að ef þau hefðu vitað hvernig kaup Al-Thanis voru fjármögnuð í raun hefðu þau skrifað öðruvísi fréttir um málið á sínum tíma.

Björn sagði ákærðu hafa dreift villandi og misvísandi upplýsingum sem hafi orðið til þess að stjórnvöld og almenningur höfðu mesta trú á Kaupþingi af íslensku bönkunum.

Minntist saksóknari meðal annars á 500 milljóna evra neyðarlán til Kaupþings 6. október 2008 og sagðist telja að jákvæð umfjöllun um bankann vegna kaupa Al-Thanis hefði haft áhrif á að það lán var veitt.


Tengdar fréttir

Allir sakborningar áfrýja niðurstöðu í Al-Thani máli

Allir sakborningar í Al-Thani málinu ætla að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Málsvarnarlaun sem Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings var dæmdur til að greiða verjanda sínum við í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í Al-Thani málinu eru hæstu málsvarnarlaun sem dæmd hafa verið í sakamáli hér á landi.

Dómur í Al-Thani máli í dag - allt sem þú þarft að vita

Dómur verður kveðinn upp í Al-Thani málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag kl. 15. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings og aðrir sakborningar í málinu gætu átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi.

Aðalmeðferð í Al Thani málinu

Þrír af fjórum sakborningum, Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson, báru vitni í dag.

Al-Thani málið: Þungir fangelsisdómar yfir Kaupþingsmönnum

Dómur var kveðinn upp í Al-Thani málinu nú rétt í þessu. Sakborningar fengu eftirtalda dóma: Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, fimm ár og hálft ár. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, fimm ár. Ólafur Ólafsson, fjárfestir, 3 og hálft ár. Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg 3 ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×