Norska kvennalandsliðið í fótbolta verður án lykilleikmanns í úrslitakeppni HM í Kanada sem hefst í næsta mánuði því Caroline Graham Hansen er meidd.
Landsliðsþjálfarinn Truls Straume-Næsheim var búin að velja Caroline Graham Hansen í HM-hópinn en eftir skoðun hjá læknaliðinu í gær kom í ljós að hún gæti ekki verið með.
Caroline Graham Hansen sló í gegn á Em 2013 þegar norska liðið fór alla leið í úrslitaleikinn en þá var hún aðeins átján ára gömul. Hansen lék áður með Stabæk en spilar nú með þýska stórliðinu Wolfsburg.
Caroline Graham Hansen skoraði 8 mörk og gaf 8 stoðsendingar í 9 leikjum í undankeppni HM þar sem norsku stelpurnar unnu sinn riðil. Hansen fór til Wolfsburg í haust en hefur lítið getað spilað vegna hnémeiðslanna.
„Það hefur verið draumur hjá mér að spila á HM en ég sé það núna að ég get ekki spilað með þessa verki," sagði Caroline Graham Hansen í viðtali á heimasíðu norska sambandsins.
„Ég er vissulega svekkt en ég veit að ég á mín bestu fótboltaár eftir. Ég vona því að ég eigi eftir að fá tækifæri til að spila á fleiri stórmótum. Ég mun fylgjast með stelpunum á sjónvarpsskjánum," sagði Hansen.
Anja Sönstevold kemur inn í norska hópinn fyrir Hansen en Sönstevold er liðsfélagi landsliðsmarkvarðarins Guðbjargar Gunnarsdóttur hjá Lilleström.
Norðmenn eru í riðli með Þýskalandi, Fílabeinsströndinni og Tælandi og fyrsti leikurinn er á móti Tælandi í Ottawa 7. júní næstkomandi.
Norðmenn án stærstu stjörnu sinnar á HM í fótbolta
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið



Vilja úrslitaleik snemma vegna Eurovision
Enski boltinn


Sjáðu markaveislu KR og rothögg KA gegn FH
Íslenski boltinn




Lakers sprungu og eiga bara eina líflínu
Körfubolti

Uppgjörið: KR - ÍA 5-0 | Skemmtikraftarnir slógu ekki slöku við
Íslenski boltinn