Innlent

„Nokkuð ljóst að hér hafi einhverjir farið ansi illilega fram úr sér við framkvæmdir“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Aldís Hafsteinsdóttir fyrr í sumar.
Aldís Hafsteinsdóttir fyrr í sumar. Vísir/Pjetur
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, er ósátt við framkvæmdir sveitarfélagsins Ölfuss inn af Hveragerði. Þótti henni undarlegt þegar hún sá um daginn stærðarinnar plan innst í Ölfusdal en henni var ókunnugt um framkvæmdirnar. Þetta kemur fram á bloggsíðu Aldísar.

„Skipulagsmál eru afskaplega vandmeðfarin og því fannst mér harla undarlegt þegar ég sá um daginn að innst í dalnum er núna komið risastórt plan. Ég hef grun um að þarna eigi að rísa fjárrétt Ölfusinga en við Hvergerðingar höfum ekki heyrt neitt um þessa framkvæmd sem hafa mun heilmikil áhrif á þessu svæði.  Hvað á þessi rétt að vera stór? Hvað er gerðið stórt og hvar er það?  Hvernig á aðkoma að henni að vera? Hvernig er hönnunin?  Falleg eins og Hrunarétt eða hálfgert bráðabirgðamannvirki? Hver er vegtengingin og hvernig fer með vaðið?

Fjöldi spurninga en engin svör!  Sá síðan í fundargerð bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá því í apríl að það eigi að grenndarkynna fjárrétt fyrir Hveragerðisbæ.  Sú grenndarkynning hefur aldrei farið fram og því tel ég nokkuð ljóst að hér hafi einhverjir farið ansi illilega fram úr sér við framkvæmdir,“ skrifar Aldís.

Samkvæmt Aldísi verður málið skoðað á næstu dögum en hún fór yfir málið ásamt Guðmundi F. Baldurssyni, skipulags- og byggingarfulltrúa í gær, föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×