Lífið

Diskókúlur munu hanga úr byggingakrönum

Vel heppnað í fyrra Búist er við að karnivalið slái í gegn á Menningarnótt um næstu helgi.
Vel heppnað í fyrra Búist er við að karnivalið slái í gegn á Menningarnótt um næstu helgi.
Næstkomandi laugardag halda borgarbúar upp á Menningarnótt en Dj Margeir og Óli Ofur ætla að fara með hátíðarhöldin í nýjar hæðir. Í fyrra héldu þeir karnival á gatnamótum Klapparstígs og Hverfisgötu og þeir ætla að endurtaka leikinn í ár. Með aðstoð frá Nova ætla þeir með karnivalið í nýjar hæðir og leyfa gestum og gangandi að upplifa alvöru danspartí úti á miðri götu. Þeir fara óhefðbundnar leiðir þegar það kemur að uppsetningunni en þeir ætla meðal annars að hengja stærstu diskókúlu landsins upp í byggingarkrana sem er á svæðinu vegna hótelbyggingar.

„Ég var að horfa út um gluggann hjá mér þegar mér datt þetta í hug. Ég sló á þráðinn til byggingarverktakanna og þetta var bara samþykkt og ákveðið í einu símtali. Eftir því sem ég kemst næst þá á Nova stærstu diskókúlu landsins en ef það er til önnur stærri þá notum við hana,“ segir Margeir. Þegar líða fer á daginn ætla þeir að nota það öflugan kastara á diskókúluna að það þurfti að láta flugumferðarstjórn vita af því. „Við erum komin með öll leyfi sem við þurfum og þetta verður bara algjör snilld.“

Í fyrra mættu mörg þúsund manns á karnivalið en það má búast við fleirum í ár þar sem það sló í gegn í fyrra. Dagskráin er pökkuð af flottum tónlistarmönnum ásamt því að það verður „pop-up“ jóga yfir daginn. Þeir skildu þó eftir eitt gat í dagskránni. „Mig langar að gefa einhverjum efnilegum plötusnúð tækifæri á að spila og auglýsi hér með eftir einhverjum sem hefur áhuga og langar að sýna hvað í sér býr.“

Það er öruggt að allir á svæðinu verði dansandi og enginn kemst upp með að standa og fylgjast með. „Það sem var svo gaman í fyrra var hvað allir voru að taka þátt og dönsuðu á fullu. Þetta var eins og dansmaraþon. Í ár erum við í samstarfi við Reykjavík Dance Festival og á einum tímapunkti munu þau koma fram og peppa alla upp.“

Karnivalið er engin venjuleg hátíð enda verður lagt gras á reitinn og byggt alvöru svið. „Þetta er ekki bíll sem keyrir inn á miðja götuna þar sem hliðarnar opnast og þá myndast svið. Við erum að virkja alla borgarbúa í að taka þátt í von um að þetta verði einhvers konar hverfishátíð. Svo hvetjum við líka aðra byggingarverktaka til þess að hengja diskókúlur í byggingakranana sína í tilefni Menningarnætur.“

Ég sló á þráðinn til byggingarverktakanna og þetta var bara samþykkt og ákveðið í einu símtali. Eftir því sem ég kemst næst þá á Nova stærstu diskókúlu landsins en ef það er til önnur stærri þá notum við hana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×