Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður Nordsjælland og íslenska U-21 landsliðsins, verður frá næstu 8-10 vikurnar vegna ökklameiðsla. Þetta var tilkynnt á heimasíðu danska félagsins í dag.
Rúnar Alex er með brákað bein í ökklanum og því líklegt að hann geti ekki spilað á nýjan leik fyrr en í mars en vetrarfrí er nú í dönsku deildinni.
Hann kemur því ekki til greina í verkefni íslenska A-landliðsins í janúar en Ísland spilar þá þrjá æfingaleiki - tvo í Abú Dabí og einn í Bandaríkjunum.
Rúnar Alex hefur spilað einn bikarleik með Nordsjælland á tímabilinu en sem kunnugt er var Ólafi Kristjánssyni sagt upp störfum sem þjálfara liðsins á dögunum.
Þessi tvítugi markvörður á að baki 12 leiki með U-21 liði Íslands.
