Fótbolti

Slæmar níu mínútur felldu OB í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ari Freyr Skúlason.
Ari Freyr Skúlason. Vísir/Daníel
Landsliðsmennirnir Hallgrímur Jónasson og Ari Freyr Skúlason og félagar þeirra í OB töpuðu í kvöld á heimavelli á móti næstneðsta liði dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

OB var tíu stigum á undan Vestsjælland í tíunda og síðasta örugga sæti deildarinnar fyrir leikinn í kvöld en Vestsjælland minnkaði forskotið í sjö stig með 2-1 útisigri.

OB komst í 1-0 eftir aðeins fjögurra mínútna leik og þannig var staðan þar til á 50. mínútu er Vestsjælland jafnaði metin. Vestsjælland skoraði síðan sigurmarkið aðeins níu mínútum síðar.

Hallgrímur Jónasson spilaði allan leikinn fyrir Odense og Ari Freyr Skúlason kom inná sem varamaður á 73. mínútu þegar liðið var búið að vera undir í fjórtán mínútur.

Thomas Dalgaard skoraði mark OB í leiknum en þeir Rasmus Festersen og Apostolos Vellios skoruðu fyrir Vestsjælland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×