Innlent

Starfsmenn hjá RÚV boða aftur til verkfalls

Atli Ísleifsson skrifar
Stjórnendur RÚV segja viðræður aftur vera komnar á byrjunarreit.
Stjórnendur RÚV segja viðræður aftur vera komnar á byrjunarreit. Vísir/Ernir
Starfsmenn RÚV sem eru í Rafiðnaðarsambandi Íslands hafa á ný boðað til verkfalls. Verkfallið mun standa fyrst dagana 16. til 19. apríl næstkomandi og svo aftur frá 24. apríl, þá ótímabundið.

Í tilkynningu frá RÚV segir að fyrir rúmri viku hafi legið fyrir samkomulag um lykilatriði nýs fyrirtækjasamnings en á lokametrunum hafi samninganefnd RSÍ sett fram nýjar kröfur sem væru þess eðlis að RÚV taldi óábyrgt að ganga að þeim.

„Ríkisútvarpið vill að sjálfsögðu tryggja starfsmönnum RÚV sanngjörn kjör en sú viðleitni verður að vera í einhverju samhengi við þá samninga sem gerðir eru á almennum markaði og mega ekki stofna rekstri RÚV í óvissu til framtíðar. Í kjölfarið sleit samninganefnd RSÍ viðræðunum og sló þar með út af borðinu þær umbætur sem samkomulag lá þó fyrir um.

Í viðræðunum hafði RÚV samþykkt tillögur RSÍ um nýja launatöflu með starfsaldurshækkunum og skilgreiningu á störfum tæknimanna sem hefði leitt til umtalsverðrar kjarabótar, m.a. með nokkurri hækkun launa. Með því taldi RÚV sig vera að mæta breyttu tækniumhverfi og viðurkenna breytingar á starfssviði tæknimanna. Auk leiðréttinga á launaflokkum nú hefðu starfsmenn RSÍ sem starfa hjá RÚV fengið þær almennu hækkanir sem mögulega semst um í nýjum almennum kjarasamningum RSÍ og Samtaka atvinnulífsins. Þetta tilboð RÚV rann út á hádegi í dag, þann 7. apríl.  Ný krafa RSÍ þýddi að til viðbótar við það sem aðilar voru orðnir sammála hefðu mögulega komið til tvöföld launaflokkahækkun, annars vegar í gegnum fyrirtækjasamning og að auki í gegnum almennan kjarasamning RSÍ og SA.

Það eru stjórnendum RÚV mikil vonbrigði að tilboði um fyrirtækjasamning sem tók á lykilkröfum starfsmanna RÚV hafi verið hafnað og að viðræður séu því komnar á upphafsreit hjá Ríkissáttasemjara.  RÚV mun halda áfram að gera allt sem mögulegt er til að ljúka samningum og koma í veg fyrir að af verkfalli verði. Ljóst er að verkfallsaðgerðir RSÍ myndu hafa veruleg áhrif á þjónustu RÚV sem þorri þjóðarinnar nýtir sér daglega.  Aðrir starfsmenn og stjórnendur RÚV munu leggja sig fram um að tryggja sem minnsta röskun á dagskrá og fréttastofan mun að sjálfsögðu standa vaktina, allan sólarhringinn sem endranær,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×