Enski boltinn

Arnar: Rooney er betri en Suárez punktur og basta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney, framherji Manchester United, skoraði frábært mark í 3-1 sigri liðsins gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Rooney tók meistaralega við fyrirgjöf Ángel Di María og klíndi boltanum í samskeytin. Hans 230. mark fyrir Manchester United.

Með sigrinum færðist Manchester United nær Meistaradeildarsæti en það er með 62 stig í þriðja sæti deildarinnar þegar sjö umferðir eru eftir.

Glæsilegt mark Wayne Rooney:


„Mér finnst Rooney stundum vera vanmetinn leikmaður. Ég veit þetta hljómar fáránlega því hann er á leið með að slá markamet Bobby Charlton hjá United og landsliðinu, en samt er eins og fólk sé alltaf í smá vafa um hann,“ sagði Arnar Gunnlaugsson í Messunni í gærkvöldi.

„Ég man við vorum að tala um fyrir tveimur vikum síðan hvort einhver í Manchester United eða Liverpool gæti spilað með Barcelona eða Real Madrid. Ég biðst bara afsökunar. Hann getur auðvitað spilað í báðum liðum.“

„Hann getur spilað fyrir Bale eða Benzema hjá Real Madrid og fyrir mér er hann betri en Luis Suárez. Punktur og basta,“ sagði Arnar.

Guðmundur Benediktsson stöðvaði Arnar og sagði: „Ég get ekki samþykkt þetta,“ en Arnar svaraði: „Mér er alveg sama þó þú sért mér ekki sammála.“

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×