Innlent

Mikill hugur í félagsmönnum BHM

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Frá fundi BHM í Rúgbrauðsgerðinni í morgun
Frá fundi BHM í Rúgbrauðsgerðinni í morgun MYND/Stöð 2
Mikill hugur er í félagsmönnum BHM sem hófu verkfallsaðgerðir á miðnætti. Þetta segir Páll Halldórsson formaður Bandalags háskólamanna. Fimm hundruð og sextíu félagsmenn BHM lögðu niður störf á miðnætti.

Flestir þeirra starfa á Landspítalanum eða öðrum heilbrigðisstofnunum en um er að ræða geislafræðinga, lífeindafræðinga, ljósmæður og náttúrfræðinga. Þá lögðu lögfræðingar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu einnig niður störf.

Í morgun hittist stór hluti þeirra félagsmanna sem er í verkfalli á fundi í Rúgbrauðsgerðinni.

„Þetta hefur nú bara gengið ósköp friðsamlega fyrir sig yfirleitt. Ég hef ekki heyrt um nein vandamál sem hafa fylgt framkvæmdinni en auðvitað hefur þetta komið við þá starfsemi þar sem að fólk er í verkfalli,“ segir Páll Halldórsson formaður BHM.

Fundað á morgun

„Það er sannarlega hugur í fólki og við fundum það hér í morgun og höfum fundið það reyndar í allan dag. Eina sem við söknum er það að við myndum helst vilja tala um lausn við okkar viðsemjendur en það er fundur á morgun og við sjáum hvað gerist,“ segir Páll en deiluaðilar munu hittast í Karphúsinu á morgun.

Páll segir að á fimmtudaginn skelli á allsherjarverkfall ef ekki verði búið að semja fyrir þann tíma. Þá leggja ríflega 2300 félagsmenn BHM niður störf.

„Þá verður baráttufundur sem að tengjist því og síðan munu koma viðbótarverkföll inn þann tuttugasta þessa mánaðar,“ segir Páll.

Hér má sjá yfirlit yfir fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir BHM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×