Innlent

Fimm kynferðisbrot á Þjóðhátíð tilkynnt til lögreglu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Fimm kynferðisbrot sem áttu sér stað á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum voru tilkynnt til lögreglu. Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni, kafteini Pírata.

Í umsögn embættis lögreglustjórans, sem er frá 30. september, kemur fram að fimm kynferðisbrot sem áttu sér  stað í Eyjum frá 30. júlí til 3. ágúst voru tilkynnt til lögreglunnar. Þar er um þrjár nauðganir sem gerðust 31. júlí og 1.- og 2. ágúst, kynferðislega áreitni þann 1. ágúst og brot gegn blygðunarsemi þann 1. ágúst.

Tvö brotanna voru kærð hjá lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum. Eitt hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi og eitt hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Fram kemur í svarinu að ein nauðgunin hafi verið tilkynnt til lögreglu 2. ágúst, en ekki segir að kært hafi verið í málinu.

Mikla athygli vakti þegar Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sendi viðbragðsaðilum bréf í júlí þar sem hún brýndi fyrir þeim að upplýsa fjölmiðla ekki um hugsanleg kynferðisbrot Þjóðhátíð. Í september fengust þær upplýsingar frá neyðarmóttöku að þrír hefðu leitað þangað vegna kynferðisbrota á hátíðinni.






Tengdar fréttir

Upplýstu um kynferðisbrot vegna frétta frá neyðarmóttöku

Þrjár konur hafa leitað til neyðarmóttöku kynferðisbrota á Landspítalanum í Fossvogi eftir Verslunarmannahelgina. Brotin voru öll framin á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Einn þriðji þeirra sem leitar á neyðarmóttökuna er undir lögaldri. Páley Borgþórsdóttir sér ekki eftir ákvörðun um að upplýsa ekki um fjölda kynferðisbrota á Þjóðhátíð. Ekki stóð til að upplýsa strax um fjölda kynferðisbrota en upplýsingagjöf neyðarmóttökunnar varð til þess að lögreglan í Vestmannaeyjum fylgdi á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×