Innlent

Með blóðsugumítil á maganum

Sveinn Arnarsson skrifar
Stjörnumítill (Amblyomma americanum) er blóðsuga sem ber með sér bakteríur og veirur sem geta valdið alvarlegum sýkingum.
Stjörnumítill (Amblyomma americanum) er blóðsuga sem ber með sér bakteríur og veirur sem geta valdið alvarlegum sýkingum. Mynd/Erling Ólafsson
Erling Ólafsson, skordýrafræðingur
Blóðsugan stjörnumítill fannst hér á landi í byrjun mánaðarins áfastur kvið íslenskrar konu sem kom til landsins frá austurströnd Bandaríkjanna. Náttúrufræðistofnun barst skordýrið til greiningar og er þetta í annað skipti sem þessi tegund finnst hér á landi. Í fyrra skiptið kom mítillinn til landsins í hársverði barns sem einnig kom frá sama svæði í Bandaríkjunum.

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir nokkur tilvik hafa komið upp þar sem mítlar hafa tekið sér far með íslenskum ferðamönnum. „Í þessu tilviki hafði konan kroppað af sér hrúður á maganum og séð þá spriklandi lappir. Í Bandaríkjunum er skordýrið sækið í manninn sem og önnur spendýr. Þó að hann beri ekki með sér Lyme-sjúkdóminn, líkt og skógarmítillinn, getur hann boðið upp á ýmsa alvarlega kvilla, bæði bakteríur og veirur,“ segir Erling.

Á vef Náttúrufræðistofnunar bendir Erling einnig á að rakkamítill hafi komið til landsins í síðasta mánuði frá sama svæði. Einnig bendir Erling á að mikilvægt sé að greina tegundina því mikilvægt sé að vita hvaða tegund mítils sé um að ræða. „Mítlar bera mismunandi gerðir sýkla eftir því hver tegundin er og mikilvægt er að vita hvaða sýkingum þarf að vera á varðbergi gagnvart,“ segir Erling.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×