Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Bayern München, segir að Bastian Schweinsteiger verði sjálfur að taka ákvörðun um framtíð sína hjá félaginu.
Schweinsteiger hefur verið orðaður við Manchester United undanfarna daga en Louis van Gaal, stjóri United, þekkir miðjumanninn vel frá því hann stýrði Bayern á árunum 2009-11.
Schweinsteiger, sem er fyrirliði þýska landsliðsins, hefur ekki enn gert nýjan samning við Bayern en núverandi samningur hans rennur út á næsta ári.
„Ég get ekki tekið ákvörðun fyrir Bastian,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í dag.
„Hann er leikmaður Bayern og er samningsbundinn félaginu. Hann er goðsögn hjá félaginu en ég get ekki, frekar en Karl-Heinz Rummenigge, ákveðið þetta fyrir hann. Bastian er með samning við Bayern og hluti af áætlununum mínum fyrir næsta tímabil.“
Bayern tekur á móti Mainz 05 í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar á morgun.
Guardiola: Get ekki tekið ákvörðun fyrir Schweinsteiger
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
